Innlent

Eiga oft erfitt með að fá vinnu við hæfi: Dýralæknir í kjötvinnslu

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
„Ég mun vonandi einn daginn starfa við það sem ég menntaði mig til,“ segir Stacia dýralæknir.
„Ég mun vonandi einn daginn starfa við það sem ég menntaði mig til,“ segir Stacia dýralæknir. Vísir/Vilhelm

Það getur reynst innflytjendum sem setjast að hér á landi erfitt að fá menntun sína metna eða fá starf sem hæfir menntuninni. Mörg dæmi eru um að háskólamenntaðir innflytjendur sinni láglaunastörfum hérlendis.

Ástæðurnar eru margvíslegar. Sumir hafa átt erfitt með að fá menntun sína viðurkennda og þá sérstaklega þeir sem koma frá löndum utan EES. Margir þeirra sem Fréttablaðið hefur rætt við telja líka að það sé erfiðara að fá vinnu við sína menntun hérlendis beri maður erlent nafn.

Flestir sem koma hingað fara fyrst um sinn að vinna í láglaunastörfum meðan þeir koma sér inn í samfélagið. Tungumálið reynist þeim mörgum fjötur um fót til að byrja með.

Þyrfti að einfalda
Samtök kvenna af erlendum uppruna segja marga lenda í vandræðum með að fá námið metið. Stjórnarkonurnar Angelique Kelly og Anna Katarzyna Wozniczka benda á að það þurfi að líta á nám sem auðlind sem eigi að nýtast, hvort sem það er erlend menntun eða íslensk.

„Ísland er að missa af tækifæri til þess að nota menntun og þekkingu þessa fólks,“ segir Anna. Þær benda á að það myndi hjálpa mörgum ef það yrði gert aðgengilegra og auðveldara fyrir fólk að fara í gegnum ferli til þess að láta meta nám sitt.

Einnig mætti gera íslenskunám hagnýtara að einhverju leyti þannig að það tengist ákveðnum deildum. Þannig ætti að vera auðveldara að fara til starfa í því sérstaka fagi sem viðkomandi er menntaður í.

Auðveldara fyrir fagmenntaða
Auðveldara reynist iðn- og fagmenntuðum að fá metna sína menntun heldur en háskólamenntuðum, eftir að svokallað raunhæfnimat var tekið upp, samkvæmt Margréti Steinarsdóttur, lögfræðingi og framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Matið felur í sér verklegt mat á kunnáttu. „Einstaklingur er settur í slíkt mat og mögulega uppfyllir hann öll skilyrði eða það vantar kannski eitthvað upp á og þá er honum leiðbeint með það og getur þá bætt við menntun sína.“ Hún hefur unnið að málefnum innflytjenda frá árinu 2004 og segir algeng erindi til Mannréttindaskrifstofunnar snúa að því að fá hjálp við að fá menntun sína viðurkennda.

Óþarfi að hræðast
Samkvæmt þeim fjölmörgu sem Fréttablaðið hefur rætt við reynist hvað erfiðast að fá menntun á heilbrigðissviði metna. Kröfurnar eru háar vegna eðli starfsins en mörgum þykir þær of strangar. Í síðustu viku var sögð saga Liönu Belinski sem er menntaður kvensjúkdómalæknir frá föðurlandinu Úkraínu og hefur búið hér í ellefu ár.

Hún hefur starfað á leikskóla í átta ár þar sem það hefur reynst henni erfitt að fá nám sitt metið hér. Eiginmaður hennar er menntaður skurðlæknir en vinnur í eldhúsi og vörumótttöku á spítala. Margrét bendir á í þessu samhengi einnig á að það sé óþarfi að hræðast erlenda menntun.

„Í flestum ríkjum þar sem fólk er með háskólamenntun þá er það fullnægjandi menntun þannig að ég held við þurfum ekkert að vera hrædd við það.“

Telur það ekki erfiðara hér 
Leifur Bárðarson, starfandi landlæknir, segist ekki kannast við að erfiðara sé að fá metið læknisnám hér heldur en annars staðar. „Þetta er ekkert flókið í sjálfu sér. Við þurfum að fá góða og gilda sönnun fyrir því að viðkomandi hafi lokið námi einhvers staðar og það uppfylli ákveðin skilyrði. Menntun á þessum stöðum er oft með öðrum hætti heldur en hér. Við viljum tryggja að menn hafi þá reynslu og þekkingu sem almennt tíðkast hér.“ 

Ekki séríslenskt fyrirbæri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Reykjavík síðdegis í vikunni, að henni fyndist vera leifar af gömlum fordómum sem snúa að menntun sem kemur annars staðar frá en Íslandi. 

Vinnumarkaðurinn stæði frammi fyrir þeirri áskorun að viðurkenna menntun annars staðar frá. Hún sagði ekki vera um séríslenskt fyrirbæri að ræða, staðan væri svipuð í nágrannalöndum okkur. Hún telur þó að þetta sé að breytast. 
„Fólk gerir sér grein fyrir því að við þurfum á öllum hæfileikum að halda. Hvar sem þeir eru í samfélaginu.“

Hagnýt íslenskukennsla 
Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri í Breiðholti, er yfir tilraunaverkefninu Menntun núna sem fram fer í Breiðholti og Norðvesturkjördæmi. Markmið verkefnsins er að auka ráðgjöf og stuðning við menntun innflytjenda. Liður í því er að hjálpa fólki að fá menntun sína metna hérlendis.

Óskar segir reynsluna af verkefninu vera góða en megináhersla hefur verið lögð á þá sem eru með litla menntun eða enga. Engu að síður þekkir hann til þeirra sem eru mikið menntaðir en fá ekki störf við hæfi eða menntun sína metna.

Að hans mati eru nokkur atriði sem mætti hafa í huga til að hjálpa fólki að eiga greiðari leið inn á vinnumarkað og fá starf sem hentar þeirra menntun. Nefnir hann hagnýta íslenskukennslu, ráðgjafaþjónustu og að atvinnurekendur taki það föstum tökum að ráða inn fólk af erlendum uppruna.

„Það þyrfti íslenskunám sem er sniðið að þörfum hvers og eins, ráðgjafaþjónustu frá fyrsta degi sem gæti hjálpað fólki mjög hratt og örugglega í gegnum kerfið og að atvinnurekendur, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar, taki það mjög alvarlega að ráða inn fólk af erlendum uppruna með þessa hæfni,“ segir hann.

„Það gerist ekkert nema við setjum þetta inn sem stefnu,“ segir hann. „Eins með stjórnir fyrirtækja, rétt eins og við viljum jafna kynjahlutfall þá mætti alveg kveða sterkar að orði í mannauðsstefnu stofnana og fyrirtækja um þetta,“ segir hann.

Vélaverkfræðingur fær ekki vinnu
Magdalena Malecka er fædd í Póllandi en kom til Íslands í lok árs 2006. Hún er menntaður vélaverkfræðingur frá föðurlandinu en jók við menntun sína í Þýskalandi.

Henni hefur ekki tekist að fá vinnu við hæfi eftir að hún flutti hingað. Menntun hennar var metin af Háskólanum en illa hefur gengið að fá vinnu. 
„Ég vissi að þegar ég kæmi fyrst þá myndi ég þurfa að læra tungumálið og koma mér inn í samfélagið áður en ég fengi vinnu,“ segir hún. 

Magdalena starfaði við ræstingar en missti starfið eftir að hún veiktist og var frá vinnu í smá tíma. Hún eignaðist svo son sinn sem er nú tveggja ára og frá því hún var búin í fæðingarorlofi hefur hún reynt að fá vinnu sem hentar menntun hennar. 

„Ég leitaði til Vinnumálastofnunar sem hjálpaði mér að reyna að finna starf sem myndi henta mér. Þeir hafa sent ferilskrána mína og meðmæli til nokkurra fyrirtækja þar sem menntun mín myndi nýtast eða ég kæmist í starfsþjálfun. Ég fékk hins vegar engin svör frá fyrirtækjunum.“

Hún hefur ekki náð fullkomnum tökum á íslenskunni en talar góða ensku. Magdalena er atvinnulaus sem stendur en er nú að leita sér að vinnu þar sem hún ætlar að leggja áherslu á að ná betri tökum á íslensku í þeirri von að fá vinnu við hæfi.

„Það var sagt við mig að kannski ætti ég að flytja frá Íslandi, til dæmis til Noregs þar sem gæti vantað verkfræðinga. Mér finnst það sorglegt því mig langar ekki að flytja frá Íslandi. Ég keypti mér íbúð hér fyrir ári og á tveggja ára gamlan son sem var að byrja í leikskóla og er ánægður þar. Þannig mig langar ekki að gefast upp,“ segir hún.

„Ég vona að það verði þannig að innflytjendur sem koma hingað með menntun frá góðum háskólum úti um allan heim geti fengið að starfa hér við menntun sína. Annars mun fólk flytja til annarra landa þar sem fyrirtæki vilja ráða það.“

Dýralæknir í kjötvinnslu
Stacia Zakarauskiené flutti til Íslands árið 2007. Hún er frá Litháen og menntuð sem dýralæknir þaðan. Hún vann við dýralækningar þarlendis í nokkur ár og ýmis störf tengd menntun sinni.

Þegar hingað var komið fékk hún menntun sína metna en hefur ekki starfað sem dýralæknir. Hún fékk samning til reynslu hjá dýralækni en endaði á að vinna í kjötvinnslu þar sem hún hefur átt í erfiðleikum með að ná tökum á íslenska tungumálinu.

„Ég reyndi að vinna sem dýralæknir en það stoppar mig að ég er ekki góð í íslensku. Ég get ekki talað mjög flókið og útskýrt hluti.“ Núna vinnur hún í kjötvinnslu og kann vel við sig.

„Íslendingar eru yndislegir. Vinnufélagar mínir hafa stutt mig mjög mikið og mér finnst mjög gott að vera hér,“ segir hún. „Ég mun samt vonandi einn daginn starfa við það sem ég menntaði mig til, þegar ég hef náð betri tökum á íslenskunni.“

Lögfræðingur vinnur á leikskóla
„Ég er menntuð sem lögfræðingur frá Brasilíu. Stuttu eftir að ég sótti um málflutningsleyfi fyrir hæstarétti þar, kynntist ég fyrrverandi manninum mínum í Brasilíu. Síðan ákváðum við að búa á Íslandi,“ segir Miriam Guerra D. Másson sem er lögfræðimenntuð frá Brasilíu.

Hún getur ekki nýtt sér menntun sína hér af þeim augljósu ástæðum að lagaumhverfið er allt annað hér en í heimalandinu. „Þannig að ég fór að vinna á leikskóla og líkaði það mjög vel. Svo í framhaldi ákvað ég að mennta mig í þeim fræðum. Það var auðvitað leiðinlegt að vita að ég gæti ekki starfað hér sem lögmaður, eftir að hafa klárað sex ára lögfræðinám.“

Áður en Miriam flutti hingað til lands hafði hún einnig náð inntökuprófi til að komast inn í skóla sem undirbýr nemendur undir að verða dómarar. 

Miriam skilur það vel að geta ekki nýtt lögfræðimenntun sína hér þar sem lagaumhverfið er annað, en það kom henni á óvart hvernig störf henni voru boðin þegar hún kom hingað.

„Þegar ég hef sótt um vinnu hér hefur það komið mér á óvart að vera oft bara boðin störf eins og við ræstingar til dæmis.“ 

Hún tekur fram að þó hún hafi átt mjög gott líf í Brasilíu, þá hafi hún aldrei séð eftir að hafa flust til landsins. Hér er hún ánægð með lífið ásamt eiginmanni og börnum og segist hafa lært hluti sem hún hefði aldrei kynnst í Brasilíu. 

Miriam fór í Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum þar sem hún ætlaði að taka meistaranám í umhverfislögfræði.

„Ég hef mikinn áhuga á lögum og þess vegna fór ég í HÍ, en hætti í náminu því ég myndi ekki fá nein réttindi hér. Þrátt fyrir að ég fái ekki nám mitt metið hér, hef ég kynnt mér mjög vel íslensk lög.“

Í stað þess fór hún að læra uppeldissálfræði í brasilískum háskóla og flaug á milli til þess að klára námið. Hún hefur nýtt sér þetta nám í starfi sínu á leikskóla en á sér enn þann draum að geta starfað sem lögmaður.

„Ég er varaformaður í félagi sem aðstoðar portúgölskumælandi og má því segja að ég sé verjandi hagsmuna þeirra,“ segir hún.

Synjað ólöglega um inngöngu í Lögregluskólann
Davor Purusic kom til Íslands árið 1993. Hann var lögreglumaður í Sarajevo þegar stríðið í fyrrverandi Júgóslavíu braust út og kom til Íslands til þess að leita sér lækninga. Davor lærði íslensku og sótti um að komast í Lögregluskóla ríkisins þar sem hann hafði áhuga á að starfa sem lögreglumaður hér.

Í fyrra skiptið sem hann sótti um féll hann á þolprófi en í seinna skiptið stóðst hann öll próf. Hann komst þó ekki inn.

„Þá voru reglur um að umsækjendur ættu að vera á aldrinum 20-35 ára. Ég var orðinn eldri þannig að ég hefði þurft undanþágu vegna aldurs til að fá inngöngu í skólann en hún var ekki veitt.“

Davor var ekki sáttur við niðurstöðuna og komst seinna að því að þrír aðrir hefðu fengið undanþágu þetta sama ár vegna aldurs til þess að komast inn í skólann. Hann leitaði til Umboðsmanns Alþingis og ráðuneytisins.

Málið endaði fyrir dómi þar sem hann vann málið á báðum dómsstigum. „Fyrir mér var þetta réttlætismál þar sem mér fannst eins og verið væri að segja að af því ég komst ekki inn þá hefði ég eitthvað að fela eða það væri eitthvað að mér. Ég vildi viðurkenningu á því að ég hefði ekkert að fela.“ 

Málið var fyrir dómstólum í mörg ár. Þegar niðurstaðan varð loksins ljós hafði Davor hafið nám í lögfræði við Háskólann á Bifröst. Hann útskrifaðist þaðan með fyrstu einkunn og starfar á sviði lögfræði og lögmennsku í dag.

Meðal annars starfar hann að verkefninu Menntun núna. „Sem betur fer eru breytingar til batnaðar. Augu hins opinbera og almennings eru að opnast fyrir því hversu mikill auður er falinn í fjölbreyttum hópi innflytjenda. Mér finnst virkilega metnaðarfullt af Reykjavíkurborg að ýta þessu verkefni úr vör og hlakka til að hjálpa öðrum innflytjendum að nýta réttindi sín og reynslu frá öðrum löndum í þágu íslensks samfélags.“

Þótt starfsréttindi séu fyrir hendi getur þó verið erfitt fyrir innflytjendur að fá vinnu á Íslandi. Davor segist sjálfur hafa fundið fyrir því að það sé erfiðara að sækja um störf hérlendis með erlent nafn. Hann hefur lent í því að sækja um störf hjá hinu opinbera þar sem fólk með sömu menntun og hann en minni starfsreynslu fái starfið. Hann segir þó að alltaf sé erfitt að sanna að þetta sé vegna nafnsins en að það sé tilfinningin sem hann fái. 

Þrátt fyir að hann hafi ekki farið í Lögregluskólann segir hann það hafa verið mikilvægt fyrir sig að fá réttlætinu fullnægt.

Hann lítur björtum augum á framtíðina og hvetur innflytjendur til að láta ekki hindranir hafa áhrif á markmið sín um að taka virkan þátt í íslensku atvinnulífi.

Sótti um 200 störf
„Ég kom hingað fyrst sem aupair árið 2001. Síðan kynntist ég manninum mínum og þá ákvað ég að setjast að hérna,“ segir Alina Kerul sem er frá Litháen. Hún er menntuð sem saumafræðingur frá heimalandinu.

„Fyrstu árin var ég að læra tungumálið og komast inn í samfélagið. Síðan langaði mig að gera meira og þess vegna skráði ég mig í hagfræði í háskólanum.“ 

Alina segist hafa haft einstaklega gaman af náminu og fengið góðar einkunnir þrátt fyrir að hafa verið með pínulítið barn á þessum tíma. Þegar hún útskrifaðist úr BS-náminu leitaði hún að vinnu í átta mánuði en varð ekkert ágengt í þeim efnum.

„Ég ákvað þá að taka master í fjármálahagfræði.“ Þaðan útskrifaðist hún með fyrstu einkunn. Eftir útskrift fór hún að sækja um störf á nýjan leik en ekkert gekk. „Ég sótti um 200 störf og fékk fjögur viðtöl. Þetta var ömurlegt. Ég horfði upp á samnemendur mína sækja um sömu störf og fá þau.“ 

Hún segist auðvitað ekki geta sagt það með vissu en hana grunar að það hafi eitthvað að gera með það að hún beri erlent nafn. Þeim umsóknum sé tekið á annan hátt en ef nafnið er íslenskt.

„Þetta tók mjög á. Þetta hafði mikil áhrif á sjálfstraustið hjá mér því þetta er það sem ég hef svo gaman af og langaði að vinna við,“ segir hún. 

Í dag vinnur hún í Jafnréttishúsi við ýmis skrifstofustörf. „Amal bjargaði mér. Ég hitti hana einu sinni og var að segja henni frá þessum vandamálum og hún bauð mér vinnu,“ segir hún og vísar þar til Amal Tamimi sem rekur Jafnréttishús.

Hún hefur þó ekki gefist upp og vonast til þess að hún muni einn daginn starfa sem hagfræðingur. 

„Hjarta mitt er í hagfræðinni og það er það sem ég elska að gera. Vonandi fæ ég vinnu við það einhvern tímann en núna er allavega ekkert í boði.“


Tengdar fréttir

Segir að ekki þurfi að hræðast erlenda menntun

Framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands segir betur þurfa að skoða af hverju innflytjendum reynist svo erfitt að fá menntun metna. Eftir að raunfærnimat var tekið upp er auðveldara að fá fag- og iðnmenntun metna.

Getur reynst erfitt að fá nám metið hér

Það getur reynst innflytjendum erfitt að fá menntun sína viðurkennda hér á landi. Ráðgjafi innflytjenda segir erfiðast að fá heilbrigðismenntun metna. Starfandi landlæknir kannast ekki við að erfiðara sé að fá læknanám metið á Íslandi.

Kvensjúkdómalæknir í vinnu á leikskóla í átta ár

Kona sem er fædd í Úkraínu hefur búið hérlendis í ellefu ár án þess að fá starf sem hæfir menntun hennar. Hún vinnur á leikskóla og maðurinn hennar sem er menntaður í skurðlækningum vinnur í eldhúsi á spítala.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.