Skoðun

Að heila ofbeldisreynslu

Sandra Sif Jónsdóttir skrifar
Það væri draumur að búa í samfélagi þar sem ekkert ofbeldi þrifist. Því miður er staðreyndin þó sú að mörg okkar verða fyrir því á lífsleiðinni að vera beitt ofbeldi. Það hefur oftast mikil áhrif á tilfinningalífið, sjálfsmyndina og tengslin við aðra.

Viðbrögð við ofbeldi eru oftar en ekki reiði, ótti, óöryggi, vantraust, sjálfsásökun, sorg, sjálfshatur og fleiri álíka tilfinningar. Þótt þetta séu eðlileg viðbrögð verður að forðast að leyfa þess konar tilfinningum að skjóta rótum til að þær fari ekki að hafa áhrif á lífsgleði og hamingju. Það þarf að læra að umbreyta sársaukanum svo hann nái ekki tökum á okkur og komi í veg fyrir að við njótum lífsins í góðum tengslum við okkur sjálf og aðra.

Hvernig getum við hjálpað?

Þolandi ofbeldis gerir best í því að standa með sjálfum sér og forðast sjálfsásakanir. Hann verður að læra að færa ábyrgðina yfir á gerandann þannig að sjálfið nái sér að fullu og sjálfið grói sára sinna.

Þetta eru góð ráð en hvernig getum við sem samfélag hjálpað þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi til að takast á við erfiða og sára reynslu? Þótt svarið geti hljómað einfalt er það ekki alltaf jafn auðvelt í framkvæmd. Eitt af því sem einkennir okkur mannfólkið er þörfin fyrir stuðning, það að vita að einhverjum er ekki sama og að einhver standi við bakið á okkur. Við erum öll tilfinningaverur og þörfnumst kærleika og umhyggju.

Þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi þurfa á miklum stuðningi að halda. Þeir þurfa að vita að þeir eru ekki einir á báti og að einhver er tilbúinn til að veita þeim stuðning. Þeir þurfa að finna samkennd og nauðsynlegt er að ábyrgðinni á ofbeldisverkinu sé ekki velt yfir á þolandann. Þetta ættum við sem samfélag, sem vinir og sem fjölskylda að gera óháð því hvers kyns ofbeldisverkið var, óháð aðstæðum, óháð geranda og þolanda, óháð því hverju þolandinn klæddist, hvað hann sagði, hvað hann gerði og svo framvegis. Að valda einhverjum sársauka án óþvingaðs samþykkis þess sem fyrir verður tekur sér bólfestu í huga og líkama og getur valdið ómældum skaða.

Með því að sýna þolendum stuðning og samkennd stuðlum við að heilun þeirra. Við eflum þá til að takast á við eigin reynslu, lifa án sektarkenndar og sjálfsásökunar. Það þarf oft meira til en ég tel að hér sé gott að byrja.




Skoðun

Sjá meira


×