Skoðun

Heppin

Auður Inga Rúnarsdóttir skrifar
Dagana 25. nóvember til 10. desember stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Ég er í starfsnámi hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands sem heldur utan um átakið á höfuðborgarsvæðinu, og hef því fylgst vel með átakinu.

Aukin innsýn mín í málefnið hefur gert mér dálítið ljóst. Ég er heppin. Ég er heppin vegna þess að ég hef ekki orðið fyrir alvarlegu kynbundnu ofbeldi. Vissir þú að tölfræðilega séð þá er þessi staðhæfing rétt? Ég er heppin að hafa ekki orðið fyrir alvarlegu ofbeldi vegna kyns míns. Þá er ekki þar með sagt að ég hafi aldrei orðið fyrir óviðeigandi áreitni, óþægindum eða ofbeldi af neinu tagi.

Ég hef verið hunsuð, færð til, kallað hefur verið á mig, mér kennt um að vera kynköld þegar ég sýni ekki nægan áhuga og kölluð drusla þegar ég sýni of mikinn áhuga. En ég hef ekki orðið fyrir líkamlegu eða sálarlegu tjóni sem hefur fylgt mér eða haft alvarleg áhrif á mig, og þess vegna er ég heppin.

Ég veit ekki með þig, en mér finnst það óhugnanlegt. Vissir þú að 42% kvenna eru ekki jafn „heppin“ og ég? Vissir þú að ein af hverjum fjórum konum hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi og tvær af hverjum fimm konum hafa verið beittar kynbundnu ofbeldi í einhverri mynd? Þetta eru ekki einhver illvirki sem gerast órafjarri og maður les um á netinu. Þetta er ekki að gerast í annarri vídd, öðru bæjarfélagi eða öðrum vinnustað. Kynbundið ofbeldi á sér stað í okkar nánasta umhverfi, og í okkar vinahópum og fjölskyldum eru konur (ft.) sem hafa orðið fyrir því. Konur sem eru ekki „heppnar“.

Þessu vil ég breyta. Ég get bara vonað að 16 daga átakið og greinarnar hafi áhrif og veki umræður í samfélaginu. En þú, þú getur gert vonir mínar að veruleika. Þú getur rætt viðkvæmu málefnin. Þú getur spurt vini og kunningja hvort allt sé í lagi þegar þú ert í vafa. Þú getur gert heiminn örlítið betri með því að auðvelda umræðu um kynbundið ofbeldi. Ábyrgðin á ofbeldinu er gerandans. Ábyrgðin á þögguninni er okkar allra. Aukin umræða auðveldar þolendum jafnt sem gerendum að stíga fram og leita sér hjálpar. Með þessu móti getum við haft áhrif og dregið úr kynbundnu ofbeldi.

Mér finnst rangt að eftirfarandi staðhæfing sé sönn: Ég er heppin vegna þess að ég hef ekki orðið fyrir alvarlegu ofbeldi vegna kyns míns. Ef þú ert sammála mér, leggðu þitt af mörkum og opnaðu umræðu um kynbundið ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×