Innlent

Ákvörðun um auknar greiðslur til skattrannsóknarstjóra skoðuð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Langflest skattaskjólsmál tengjast Lúxemborg. Skattrannsóknarstjóri hefur áhyggjur af því hvernig vinna á úr gögnum sem embættinu berast lækki fjárframlög til þess.
Langflest skattaskjólsmál tengjast Lúxemborg. Skattrannsóknarstjóri hefur áhyggjur af því hvernig vinna á úr gögnum sem embættinu berast lækki fjárframlög til þess.
„Það var ákveðið að taka af embætti skattrannsóknarstjóra eingreiðslu úr ríkissjóði síðustu tveggja til þriggja ára sem veitt var ár hvert þegar byrjað var að fara í frekari skattrannsóknir. Ekki var lengur talin þörf á þessu viðbótarframlagi nú. En það er með þessa stofnun eins og margar aðrar að þær vilja halda í einskiptisgreiðslur sem þær hafa fengið.“ Þannig útskýrir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, 40 milljóna króna lækkun á fjárheimildum til skattrannsóknarstjóra á fjárlögum næsta árs.

Hún tekur það þó fram að fjárlagavinnu sé ekki lokið þegar hún er spurð að því hvort það skjóti ekki skökku við að lækka fjárheimildir til embættisins þegar settur hefur verið á laggirnar starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins sem skoða á hvort lagalegar hindranir séu á kaupum á gögnum úr skattaskjólum og hvort veita eigi sakaruppgjöf vegna skattaundanskota gegn því að menn gefi sig fram. Niðurstöður starfshópsins gætu leitt til þess að skattrannsóknarstjóra bærust miklu fleiri gögn til rannsóknar.

Skattrannsóknarstjóri, Bryndís Kristjánsdóttir, lýsti í viðtali við Fréttablaðið í gær yfir áhyggjum af því hvernig vinna ætti úr gögnum sem embættinu bærust lækkuðu fjárframlögin. Yrðu ekki breytingar á fjárheimildunum blasti við uppsögn fimm til sex starfsmanna nú í desember. Bryndís tók jafnframt fram að ekki væri ljóst á hvaða verkefnum fækkunin kæmi niður.

„Fjárlaganefnd hefur ekki tekið ákvörðun um hvort auka eigi greiðslur til skattrannsóknarstjóra eða hvort þetta verði látið standa óbreytt samkvæmt frumvarpinu. Fjárlagavinnan stendur fram á þriðjudag. Ég vil að meirihlutinn taki sameiginlega ákvörðun um þetta mál og ætla þess vegna ekki að tjá mig um hvort það sé eðlilegt að embættið fái meira fé.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×