Skoðun

Skilið…

Eyjólfur Þorkelsson skrifar
Það er margt sem ég fæ ekki skilið. Ég fæ til dæmis ekki skilið af hverju það ætti að rýra kröfu lækna um leiðréttingu launa að þeir eigi svo gott með að vinna meira. Enda gjaldfellir slíkt sjónarmið alla kjarabaráttu allra stétta. „Finnst þér laun þín of lág? Fáðu þér bara aukavinnu!“ En barátta lækna snýst ekki um það sem ég fæ skilið eða ekki skilið – heldur um það sem mér finnst Íslendingar eiga skilið.

Við eigum skilið að hafa okkar persónulega heimilislækni og þurfa ekki að bíða í fleiri, fleiri vikur eftir að hitta hann.

Við eigum skilið að skattpeningar okkar nýtist í byggingu og rekstur nýs Landspítala en ekki í að greiða hverri nefndinni á fætur annarri.

Við eigum skilið að geta treyst því að læknirinn okkar sé ekki örþreyttur eftir óhóflega vinnu.

Við eigum skilið heilbrigðiskerfi sem við erum stolt af.

Í mínum huga er málið einfalt. Við eigum skilið heilbrigðiskerfi sem ljúft er að leita til og gott er að vinna í. Ég held að allir séu sammála um það. Það sem ég fæ þó ekki skilið er að stjórnmálamenn komist upp með slíkt tómlæti þegar heilbrigðiskerfinu blæðir út eða virðast beinlínis hunsa aðvörunarorðin meðvitað.

Því mér þykir of vænt um heilbrigðiskerfið til að láta stjórnmálamennina brjóta það niður. Slíkt eigum við sannarlega ekki skilið!




Skoðun

Sjá meira


×