Skoðun

Oliver Twist-kúrinn

Kristinn Tryggvi Þorleifsson skrifar
Maturinn sem börn í leikskólum í Reykjavík fá uppfyllir ekki opinber manneldismarkmið.

Þetta hef ég sjálfur sannreynt með því að bera saman matseðla í leikskóla dóttur minnar og þau næringarviðmið sem finna má í Handbók fyrir leikskólaeldhús sem Lýðheilsustöð (nú Landlæknir) gefur út og matráðum leikskóla er ætlað að starfa eftir.

Þetta hafa embættismenn Reykjavíkurborgar líka staðfest í samskiptum sínum við foreldraráð leikskólans Sunnufoldar í Grafarvogi. Upphæð til kaupa á hráefni á að vera um 250 kr. á barn á dag!

Starfsfólk leikskólans Sunnufoldar hefur gert úttekt á þessu, en til þess að uppfylla manneldismarkmið þarf fjármagn til hráefnisinnkaupa að vera um 415 kr. á barn á dag.

Þennan mun þarf að brúa.

Þess vegna skýtur það skökku við, að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem var lögð fram í síðustu viku sé gert ráð fyrir 7,5% lækkun vegna hráefniskaupa í mötuneytum leikskóla. Ef þetta gengur eftir þá verður 36 milljónum kr. minna eytt í mat handa leikskólabörnum í Reykjavík á næsta ári.

Þessari lækkun verður náð fram með hagræðingu er sagt. Það er sjálfsagt að fara vel með opinbert fé, en af hverju mega ekki leikskólabörnin njóta góðs af hagræðingunni í betri mat?

„Hvar vilt þú skera niður til að börnin fái að borða?“ gæti einhver spurt. Svarið er augljóslega: „Hvar sem er annars staðar.“ Við getum ekki ákveðið það bara sisona að víkja frá opinberum manneldismarkmiðum, sérstaklega ekki þegar börn eiga í hlut. Um þetta höfum við eiginlega ekkert val.

Foreldrar borga fyrir mat barnanna með leikskólagjöldum, sem samanstanda af námsgjaldi og fæðisgjaldi. Nú er lagt til að lækka námsgjald í leikskólum. Liggur þá ekki beint við að hækka fæðisgjaldið á móti þannig að við getum bætt matinn í leikskólanum? Eru borgarfulltrúar tilbúnir til þess að styðja þá hugmynd?

Það er kannski of djúpt í árinni tekið að segja sem svo að verið sé að innleiða „Oliver Twist-kúrinn“ í leikskólum í Reykjavík, en ef það væri hið yfirlýsta markmið þá mundi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 teljast „skref í rétta átt“.




Skoðun

Sjá meira


×