Skoðun

Ábendingar og tillögur í ferðaþjónustu í kjölfar ferðalags

Hákon Þór Sindrason skrifar
Höfundur skrifaði grein fyrr á árinu um styrkleika, auðlindir og markaðsbreytur Íslands, sjá m.a. á netid.is (einnig lengri útgáfu þessarar greinar). Þær markaðsbreytur skilgreindi höfundur einkum sem náttúruna, hreinleikann, afþreyingu og gæði veitingastaða. Samfara dreifingu ferðabókar okkar, Visitor's guide, og skrifum um veitingastaði fyrir Veitingastadir.is vefsíður og samfélagsmiðla, ferðaðist höfundur mjög mikið um landið í sumar.

Um verðlag

Verðlag hefur víða hækkað talsvert til að mynda eru fiskréttir farnir að slaga í eða yfir 4 þúsund krónur. Tveggja manna herbergi á hóteli er yfirleitt á kr. 22–30 þús. Ein af ákveðnum ranghugmyndum margra er að Ísland sé ódýrt heim að sækja. Raunin er sú sbr. samtöl mín (og kannanir) við marga ferðamenn að þeim finnst það almennt dýrt, helst með undantekningu Norðmanna og Svisslendinga þar sem laun eru mjög há og gjaldmiðill sterkur, auk þeirra sem koma frá dýrum stórborgum. Fyrst eftir hrun var ódýrara hérlendis en verðbólga er mun hærri hér á landi en almennt í löndum OECD. Þannig hefur verð á veitingastöðum, afþreyingu o.fl. hækkað hérlendis um ein 4-5% á ári síðustu ár. Laun ferðamanna í sínu landi hafa hins vegar hækkað árlega um mun lægri tölu!

Vinnuafl

Erlent vinnuafl er orðið æ algengara, sem er reyndar alþjóðleg þróun einkum á hótelum og oft í miklum meirihluta starfsmanna. Almennt var ekki að sjá og heyra annað en að það stæði sig vel, þó víða væri eðlilega íslensku- eða enskukunnáttu talsvert ábótavant. Sbr. fyrri grein er merkilegt og dýrt fyrir þjóðarbúið hve mikið þarf að flytja inn af vinnuafli meðan fjöldi ungs fólks, einkum á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 20-35 ára, er atvinnulaust (sbr. Y-krúttkynslóðin, 20-30 ára).

Eftirlit svo sem skatturinn

Ríkisskattstjóri hefur farið af stað með mikið átak í að heimsækja fyrirtæki í eftirlitsskyni, m.a. í ferðaþjónustu. Skattskil fyrirtækja, leyfismál og kennitölur starfsmanna hafa verið skoðaðar til að kanna staðgreiðsluskil o.fl. Talsverður misbrestur hefur verið víða. Of mörg fyrirtæki komast upp með að fara ekki eftir leikreglum og skekkja þannig samkeppnisstöðu vel rekinna fyrirtækja. Þetta er einn af stærri veikleikum íslensks atvinnulífs, ekki síst ferðaþjónustu. Þetta þekkir okkar fyrirtæki af eigin raun, þar sem aðilar hafa komist upp með kennitöluskipti, ósannar upplagstölur, hátt í 200 milljóna króna nauðasamninga / afskriftir, brot á samkeppnislögum o.fl. Sumir þessara aðila njóta svo jafnvel góðvildar handhafa almannafjár svo sem stofnana ríkis og bæjar. Þessu verða gerð betri skil síðar ef tími gefst. Við hjá Netinu höfum unnið ítarlega greinargerð til Samkeppniseftirlitsins um verstu brotin, sem verður væntanlega skoðað þegar sú fremur fjársvelta eftirlitsstofnun hefur tíma og mannskap til.

Fjöldi ferðamanna og spár

Heildarfjöldi ferðmanna var 914 þúsund á síðasta ári sé allt talið. Greiningardeildir tveggja banka spáðu því að fjöldinn næði ekki 1 milljón fyrr en árið 2015, þar taka þeir reyndar töluna án farþega skemmtiferðaskipa, Norrænu o.fl. sem eru vel yfir 100 þúsund. Við spáðum því í vor að fjöldinn færi vel yfir 1 milljón á árinu 2014 og að slíkt ætti sér stað fyrir utan farþega skemmtiferðaskipa. Um miðjan nóvember munum við setja fram spá vegna ársins 2015. Til samanburðar má geta að heildarfjöldi ferðamanna árið 2013 til Ísraels var 2,9 milljónir, London 16 milljónir og Danmerkur um 8 milljónir (2012).

Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er ágætlega björt enda Ísland mikið „inni“ núna og er eldgosið í Holuhrauni og eldsumbrotin í Vatnajökli landkynning að verðmæti hundraða milljóna. Fagmennska og langtímastefnumótun mætti þó vera meiri á mörgum sviðum. Við höfum lengi varað við offjárfestingu sem er í greininni, einkum í gistirými. Hótelrými og gistirými er alltaf að aukast þar sem ákveðin sprenging virðist verða árið 2016. Flugfélögum, ferðatíðni, fjölda áfangastaða o.fl. fjölgar frá ári til árs sem er burðarásinn í fjölgun ferðamanna.




Skoðun

Sjá meira


×