Gagnrýni

Afleiðingar áfengisbölsins

Ásdís Sigmundsdóttir skrifar
Stundarfró
Stundarfró
Bækur:

Stundarfró

Orri Harðarson

Sögur



Fyrsta skáldsaga Orra Harðarsonar, Stundarfró, er fyrst og fremst um böl áfengis. Sagan fjallar um afleiðingar skyndikynna ungrar stúlku á Akureyri, Dísu, og drykkfellds ungskálds að nafni Arinbjörn Hvalfjörð. Dísa býr hjá ömmu sinni, Aðalsteinu, sem verður örlagavaldur í sögu þeirra. Inn í söguna er fléttað frásögnum af ættingjum og vinum sem mjög gjarnan eiga við áfengisvandamál að stríða líkt og Arinbjörn. Margar aukapersónurnar eru jafnvel eins og skissur af mismunandi tegundum alkóhólista auk þess sem áfengi og áhrif þess eru afdrifarík í nánast öllum mikilvægum senum bókarinnar.



Það er vert að taka fram að þetta er bók sem heldur manni ágætlega og hún er bara nokkuð skemmtileg aflestrar. Stíllinn er á köflum svolítið tilgerðarlegur en líka oft ansi hnyttinn auk þess sem Orra tekst stundum mjög vel upp við stuttar en hnitmiðaðar lýsingar á aðstæðum og fólki. Hann notar tónlist markvisst til að byggja upp stemningu og í persónusköpun. Persónurnar setja lög á fóninn, vitna í dægurlagatexta og tónlistarsmekkur þeirra segir oft töluvert um karakter þeirra. Sögumaður notar einnig dægurlagatexta til að koma með athugasemdir um menn og aðstæður. Þetta er oft mjög skemmtilega gert og staðsetur auk þess söguna kirfilega á níunda áratugnum.

Orri Harðarson. „Orra tekst best upp þegar framvindan er þannig að hann leyfir sér að hvíla í textanum.“ Vísir/Pjetur
Eitt helsta vandamál sögunnar er hins vegar ójafn frásagnartaktur. Orra tekst best upp þegar framvindan er þannig að hann leyfir sér að hvíla í textanum. Þá fá lesendur að fylgjast með hugsunum persóna og aðstæður og umhverfi eru dregin sterkum dráttum. Dæmi um þetta eru lýsingar hans á timburmönnum og sjálfsréttlætingu drykkjumannsins Arinbjarnar. En stundum skautar höfundur svo hratt yfir að sagan verður yfirborðskennd. Til dæmis er sagt er frá skelfilegum og mannskemmandi atburðum eins og t.d. nauðgun Aðalsteinu nánast sem um aukaatriði sé að ræða. Okkur er sagt að atburðir hafi alvarlegar afleiðingar fyrir persónurnar en sagan sýnir ekki að svo sé, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta tengist mögulega þeirri tilfinningu að höfundur virðist halda sig (og þar með lesendum) í írónískri fjarlægð frá persónunum og atburðum sögunnar. Írónískur stíllinn ýtir undir þá tilfinningu að við séum að fylgjast með persónum sem okkur ber að vorkenna en séum jafnframt yfir þær hafin. Sögulokin eru svo þannig að maður veit varla hvort eigi að líkja þeim við sápuóperu eða amerískan raunveruleikaþátt.



Eins og fyrr segir er misnotkun áfengis rauður þráður í gegnum alla bókina og það sem stendur upp úr eru lýsingar höfundar á margvíslegum afleiðingum hennar. Þar er nægur efniviður fyrir harmræna frásögn um fólk sem ekki tekst að skapa gæfu úr gjörvileika sínum en það er eins og höfundur treysti honum ekki til að halda bókinni uppi. Því er kryddað með nauðgunum, kynferðislegri misnotkun, sifjaspellum, foreldrum sem yfirgefa börn sín, vændi, bældri samkynhneigð og almennum óheiðarleika alls og allra, án þess þó að gefa nokkru almennilegt rými og því verður sagan ekki eins áhrifarík og ætla mætti. Stíllinn og frásagnaraðferðin passa einfaldlega ekki við þá fjölmörgu alvarlegu mannlegu harmleiki sem tæpt er á þannig að frásögnin verður með ólíkindum.



Niðurstaða: Höfundur lýsir áfengisbölinu á sannfærandi og oft skemmtilegan hátt en reynir að taka á of mörgum og alvarlegum atriðum til að geta gert þeim almennileg skil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×