Safnið rekur upphaf sitt til stofnunar Lestrarfélags á Akranesi 6. nóvember 1864 og er því 150 ára þann mánaðardag í ár.
„En við erum með Vökudaga hér á Skaganum alla vikuna og því eru stöðugir viðburðir í bænum,“ segir Halldóra. Af þeim sem eru á safninu nefnir hún afmælishátíð fyrir krakka í dag milli klukkan 11 og 14.
„Viðburðurinn heitir Fjör og læti, við erum búin að útbúa samkvæmisleiki fyrir börnin og leyfum þeim að hafa hátt á safninu, aldrei þessu vant.“
Á mánudaginn verður bókmenntakvöld sem Sigurbjörg Þrastardóttir stýrir.
„Rithöfundarnir tengjast allir Skaganum,“ segir Halldóra. „Þeir eru Orri Harðarson, sem er uppalinn hér, Kristín Steinsdóttir, sem bjó hér í mörg ár, og Ari Jóhannesson læknir, sem er búsettur hér. Sigurbjörg ætlar líka að lesa úr nýútkominni ljóðabók sinni og svo er Þorgrímur Þráinsson með nýja unglingabók, hann er jú Vestlendingur.“
Halldóra segir nokkrar konur hafa setið sveittar undanfarið við að hekla dúllur sem eiga að verða 150 og mynda listaverk á safninu.
„Dúllustundin er á þriðjudag,“ segir hún. „Þá fáum við líka prjónagraffara í heimsókn sem opnar örugglega nýjar víddir fyrir handavinnufólk.“

„Í heiðurssessi eru fyrstu lög og útlánareglur lestrarfélagsins. Allir bókatitlar voru skrifaðir á blað og síðan var merkt við hverjir tóku. Hverjar voru vinsælastar? Það voru Íslendingasögurnar og rímur, Skuggasveinn, Þúsund og ein nótt, Sögur herlæknisins og bækur Jóns Thoroddsen, Piltur og stúlka og Maður og kona. Það var ekki mikið úrval af skemmtisögum til en þessar bækur voru meira teknar en guðfræði-og garðyrkjuritin.“
Halldóra segir safnið hafa brunnið að miklu leyti árið 1946 en tveimur árum síðar hafi einkasafn Guðmundar G. Hagalín verið keypt. „Það er stofninn að því safni sem hér er í dag.“
Sýningin í Bókasafni Akraness stendur út árið og er opin á afgreiðslutíma safnsins.