Skoðun

Vín eða brauð?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Gerum ráð fyrir ríkið ákveði einn daginn að nú geti fólk ekki lengur keypt brauð í kjörbúðum. Fara verði í sérstök bakarí til þess. Hver yrðu líkleg viðbrögð fólks við slíku valdboði?

Samkvæmt könnun, sem birt var nýlega varðandi frumvarp til laga um að heimilt verði að selja áfengi í matvöruverslunum, er sennilegt að viðbrögð fólks yrðu eftirfarandi:

Um 30% fólks myndi finnast það skerðing á einstaklingsfrelsi að fá ekki að kaupa sér brauð í næstu kjörbúð um leið og það keypti ýmiss konar annan varning til heimilisins. Að þurfa að taka á sig krók eftir einu brauði sem vantaði í matarkörfuna fæli í sér hömlur og óþægindi sem það kærði sig ekki um.

Á hinn bóginn er líklegt út frá ofannefndri skoðanakönnun að um 70% fólks yrði hæstánægt með þessa lagasetningu. Þetta fólk kæmi ekki auga á með hvaða hætti persónufrelsi þeirra hefði verið skert því það gæti jú áfram keypt sér brauð. Það þyrfti að vísu að hafa meira fyrir því, en brauðið fengi það að lokum.

Sambærilegar vörur?

Nú kann einhver að hugsa, að ekki sé um sambærilega vöru að ræða, vín og brauð. Vín geti valdið skaða, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið, sé þess neytt í óhófi. Því er til að svara, að hið sama má segja um brauð. Gæti menn ekki hófs í brauðáti, fitna þeir og líkur aukast á hjarta- og æðasjúkdómum með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Vín og brauð eru því sambærilegar vörur í þessu samhengi. Báðar vörurnar eru löglegar, báðar valda skaða við óhóflega neyslu og báðar kalla fram ánægju sé þeirra neytt af skynsemi.

Sjónarmiðin sætt

En viti menn! Til er lausn sem gerir báðum þessum hópum til hæfis. Annars vegar getum við leyft 30% hópnum að kaupa vín og brauð í kjörbúðum en einnig í vínbúðum og bakaríum. Hins vegar skulum við leyfa 70% hópnum að sniðganga vín og brauð í matvöruverslunum og gera sér í staðinn sérstaka ferð í vínbúð eftir víni og aðra sérstaka ferð í bakarí eftir brauði. Þannig geta 30 prósentin og 70 prósentin orðið vinir og lifað hamingjusömu lífi ævina á enda.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.