Skoðun

Hvers vegna eru Kjöríssystkinin enn í Sjálfstæðisflokknum?

Ómar Helgason skrifar
Umræðan í þætti Kastljóss þann 6. október síðastliðinn er áhugaverð. Þar voru rifjuð upp rúmlega 70 ára gömul samkeppnisbrot Mjólkursamsölunnar (MS) sem var sökuð um að setja Korpúlfsstaði, bú Thors Jensens, á hausinn. Eins og venjulega báru stjórnmálamenn enga ábyrgð, bara Mjólkursamsalan, sem var á þessum tíma dreifingaraðili á mjólk fyrir á þriðja tug mjólkurbúa um allt land. Ég hef ekki lesið mér sérstaklega til um hvers vegna lög um jöfnun flutningsgjalds voru sett á. Líklega var það til að tryggja næga mjólk fyrir höfuðborgarsvæðið. Langstærsta bú landsins, sem hafði stærðarhagkvæmni í rekstri, gat ekki borgað gjald sem var jafnt dreift á alla selda mjólkurlítra í landinu. Korpúlfsstaðabúið hlýtur að hafa verið illa rekið.

Það var fleira. Í Kastljósi segir Valdimar Hafsteinsson í Kjörís að Mjólkurbú Flóamanna (MBF) hafi beitt fjölskyldu hans ofbeldi. Fyrst með því að stöðva ostaframleiðslu föður hans og síðan með því að fara í samkeppni við Kjörís um ísgerð. Mjólkurbú Flóamanna, sem var stærsta mjólkurbú landsins á þessum tíma, beitti líka bolabrögðum með því að hætta niðurgreiðslu á smjöri til þess að setja rekstur Kjöríss á hausinn. Eðlilega fannst Valdimari fúlt að Mjólkurbú Flóamanna hafi ákveðið að beita stjórnvaldsaðgerð og hætta niðurgreiðslum á smjöri til ísgerðar. Þáttagerðarmaður Kastljóss áttaði sig ekki á að hvorki MBF né MS gátu tekið stjórnvaldsákvarðanir. Það var í höndum þáverandi landbúnaðarráðherra, sjálfstæðismannsins Ingólfs Jónssonar á Hellu.

Viðreisnarstjórnin, sem allir gamlir sjálfstæðismenn og kratar tala um eins og himnaríki með rjóma, sat á árunum frá 1959 til 1971. Allan tímann var Ingólfur Jónsson við völd sem landbúnaðarráðherra. Greinilega, eins og skilja má á Valdimar, hefur Mjólkurbú Flóamanna haft Ingólf í vasanum og því getað beitt honum fyrir sig gegn fjölskyldufyrirtæki Valdimars. Það hefur ekki verið fallega gert af Mjólkurbúinu og bráðum 50 árum síðar situr þetta enn í Kjöríssystkinunum.

Þar sem heiftin er enn svo mikil finnst mér merkilegt að þau systkinin skuli vera í framvarðarsveit sjálfstæðismanna á Suðurlandi, en systir Valdimars, Aldís, er fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Hveragerðis og bæjarstjóri. Það hlýtur að fara um Aldísi þegar hún gengur inn í musteri flokksins við Háaleitisbraut að sjá þar mynd af manninum sem hlýddi skipunum, væntanlega að ofan, og gerði allt til að koma fjölskyldu hennar á vonarvöl.

Tímabær umræða

Ég velti fyrir mér hvers vegna fólk hafi þá viðleitni að leita þangað sem illa er farið með það. Ég skil ósköp vel að þau systkin séu alveg brjáluð út í MS en ég skil ekki hvers vegna þau starfa síðan fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem var svo innilega leiðitamur Mjólkurbúi Flóamanna. Það er til málsháttur um þetta: Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Mannlegt eðli er erfitt að skilja og þar sem ég er nú bara bóndi en ekki sálfræðingur, verð ég að lifa við að skilja þetta ekki. En látum nú af tali um fornminjar.

Umræðan um MS finnst mér tímabær. Tvær afurðastöðvar hafa komið fram og kvartað yfir því að MS vilji ekki selja þeim mjólk á lægra verði en MS borgar mér fyrir afurðir mínar. En hvers vegna kaupa þessar afurðastöðvar ekki bara beint af bændum fyrst MS er svona ósanngjarnt í viðskiptum?

Ég vona að samkeppnisyfirvöld nái sínu fram þannig að ASÍ og BSRB hætti að ráðskast með verðlagningu og þar með álagningu einokunarfyrirtækinu MS á mjólkurvörum í gegnum verðlagsnefnd búvara. Ég á nefnilega hlut í MS, fyrirtæki sem fær aldrei að greiða arð og er með lélega ávöxtun á eigið fé. Ég vil fá 30%-50% ávöxtun á eigið fé á ári eins og samkeppnisfyrirtækið Hagar, dótturfélag Lífeyrissjóða ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, fær. Samkeppni, já takk!




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×