Viðskipti innlent

Vill hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor

Haraldur Guðmundsson skrifar
Skúli hefur lagt til að byggð verði ný lággjaldaflugstöð á gamla varnarsvæðinu í Keflavík.
Skúli hefur lagt til að byggð verði ný lággjaldaflugstöð á gamla varnarsvæðinu í Keflavík. Vísir/Ernir
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir flugfélagið ætla að hefja áætlunarflug til Norður-Ameríku næsta vor. Félagið hefur samið um leigu á tveimur Airbus A321-vélum og áætlanir gera ráð fyrir að farþegum fjölgi úr 500 þúsund á þessu ári í 800 þúsund árið 2015. Auknum umsvifum fylgir aukinn kostnaður og félagið gæti að sögn Skúla þurft að fara í frekari hlutafjáraukningu með aðkomu annarra fjárfesta.

Tveir áfangastaðir í fyrstu

„Við erum komin með öll tilskilin leyfi fyrir Norður-Ameríkufluginu enda búin að undirbúa þetta núna í um ár eða síðan við fengum flugrekstrarleyfið,“ segir Skúli þegar hann sest niður með blaðamanni til að ræða framtíðaráform flugfélagsins. Hann útskýrir hversu mikilvægt það er að geta tengt flug til Norður-Ameríku við Evrópu svo hægt sé að bjóða farþegum sem ferðast á milli heimsálfanna að nota Ísland sem stoppistöð. Sautján flugfélög fljúgi á milli Íslands og Evrópu og því hafi myndast mikil samkeppni í þeim ferðum.

„Aftur á móti hefur Icelandair fengið að sitja eitt að Ameríku, fyrir utan Delta sem flýgur einungis yfir sumarið til New York, og er því með einokun á þeim markaði. Því held ég að það séu miklir hagsmunir fyrir neytendur og ferðaþjónustuna í heild sinni að efla samkeppni í Norður-Ameríkuflugi.“

Skúli segir að áfangastaðir WOW í Bandaríkjunum verði tveir til að byrja með. Aðspurður nefnir hann Boston en segir að hinn áfangastaðurinn verði kynntur á næstunni. Sala á ferðunum eigi að hefjast síðar í haust og sumaráætlun fyrirtækisins verði kynnt á næstu vikum. Þá komi í ljós hvort fyrirtækið muni fjölga ferðum til ákveðinna áfangastaða eða fækka öðrum.

„Ég reikna fastlega með því að við munum sjá mikla og góða eftirspurn, bæði frá Íslendingum sem vilja ferðast með ódýrari hætti til Bandaríkjanna og svo er ég sannfærður um að ferðamenn frá Bandaríkjunum eigi enn fullt inni.“

Stæðunum úthlutað í vetur

WOW kvartaði í mars 2013 til Samkeppniseftirlitsins yfir fyrirkomulagi Isavia á úthlutun á afgreiðslutímum, eða stæðum, á Keflavíkurflugvelli. Flugfélagið gagnrýndi að Icelandair hefði fengið alla þá afgreiðslutíma sem Skúli segir að séu nauðsynlegir fyrir tengiflug á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Í nóvember 2013 beindi Samkeppniseftirlitið tilmælum til Isavia um að fyrirtækið þurfti að tryggja WOW aðgang að „samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutímum“. Í lok febrúar á þessu ári felldi áfrýjunarnefnd samkeppnismála þá ákvörðun úr gildi eftir að Isavia og Icelandair höfðu kært hana. WOW hafði þá tilkynnt að félagið hefði hætt við fyrirhugað flug til Bandaríkjanna. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem WOW krafðist þess að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur vísaði því frá en í júní síðastliðnum sendi Hæstiréttur það aftur í hérað.

„Núna er verið að stækka Leifsstöð og bæta við flughliðum og þeim á að fjölga enn frekar árið 2016. Við teljum þessar breytingar, og hliðranir í okkar áætlunum, gera okkur kleift að ná þessum tengingum,“ segir Skúli. Hann segir nú stefnt að því að brottfarartímar félagsins verði fyrr á daginn en áður var gert ráð fyrir og á undan tímum Icelandair. Þá liggur beinast við að spyrja Skúla hvort fyrirtækið ætli að reka málið áfram fyrir Héraðsdómi.

„Úrskurður Samkeppniseftirlitsins var mjög skýr og afdráttarlaus um að það er einokunarstaða á Norður-Ameríkuflugi. Hins vegar er WOW air næststærsti viðskiptavinur Isavia og á heildina litið eigum við gott samstarf við ríkisfyrirtækið. Við höfum því ákveðið að leyfa þessu máli að hafa sinn gang í kerfinu en láta það ekki trufla okkar daglegu vinnu. Mér hefur fundist það afskaplega kjánalegt að vera í einhverju stríði við einn stærsta samstarfsaðila minn,“ segir Skúli.

Hann segir að úthlutun á nýjum stæðum á Keflavíkurflugvelli fari fram í vetur.

„En við erum með fjöldann allan af plássum nú þegar og getum kosið að nota þau annaðhvort til Ameríku eða eitthvað annað. Hins vegar ætlum við að fara fram á ákveðna stækkun. Þau áform og formleg úthlutun á þeim stæðum þurfa að fara í gegnum reglulegt ferli þannig að í sjálfu sér fáum við ekki endanlega staðfestingu á því fyrr en í vetur. Hins vegar á það ekki að trufla flug til Norður-Ameríku.“

Vélar WOW eru af gerðinni Airbus A320 en þoturnar sem eiga að fara frá Íslandi til Bandaríkjanna eru af gerðinni A321. Vísir/GVA
Krefst hlutafjáraukningar

Flugfélagið er alfarið í eigu Títan fjárfestingafélags ehf. sem er aftur í eigu Skúla. Títan setti um 500 milljónir króna inn í félagið í október í fyrra og þá nam heildarfjárfesting þess um 1,5 milljörðum. Skúli segir áframhaldandi uppbyggingu WOW kalla á frekari hlutafjáraukningu og útilokar ekki að aðrir fjárfestar eigi eftir að koma að þeirri fjármögnun.

„Ég hef fram til þessa séð um það sjálfur og ætla mér að halda áfram að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Það getur hins vegar vel verið að þegar umfangið verður orðið enn meira, þegar við förum úr 11 milljarða ársveltu á þessu ári í 16 til 17 milljarða á næsta ári, að það verði mjög heilbrigt og áhugavert að breikka hluthafahópinn aðeins og efla fyrirtækið þannig. Það er eitthvað sem á eftir að koma í ljós,“ segir Skúli.

Hann gerir ráð fyrir að afkoma félagsins á síðari hluta þessa árs verði mjög góð. Afkoma fyrri árshelmings hafi litast af ákvörðuninni í vor um að hætta við Ameríkuáformin.

„Þetta hægði á öllum plönum og við vorum búin að eyða mjög miklu í undirbúning og gera skuldbindingar. Við þurftum að bregðast við og því fylgdi umtalsverður kostnaður en það þurfti ekki að afskrifa hann allan því eitthvað af honum nýtist í undirbúningnum fyrir næsta vor. Hins vegar er það ekki spurning að þetta hafði veruleg áhrif á afkomuna síðastliðinn vetur og vor.“

Lággjaldastefnan tók tíma

Skúli hefur lagt til að byggð verði ný lággjaldaflugstöð á gamla varnarsvæðinu í Keflavík. Hann segir flugstöðina geta verið mikilvægan þátt í að gera landinu kleift að taka við fleiri ferðamönnum.

„Þessi ferðamannafjöldi er ekki svo mikill miðað við stærð landsins og við ættum að geta fjölgað þeim upp í tvær til þrjár milljónir á ári á næstu tíu árum,“ segir Skúli.

„Hins vegar hefur vöxturinn verið mjög ör. Við þurfum því að huga að fjárfestingu í innviðum. Í því samhengi erum við að horfa á það hvort það sé kominn tími til að setja upp nýja flugstöð í Keflavík sem yrði lággjalda tengistöð þar sem farþegar gætu farið yfir í Leifsstöð í litlum lestum eða rútum. Öll tollafgreiðsla og annað yrði áfram í Leifsstöð en þeir farþegar sem fara aldrei inn í landið þyrftu þá ekki að fara í gegnum Leifsstöð.“

Spurður um hvað hafi komið mest á óvart síðan WOW var stofnað í maí 2012 svarar Skúli að hann hafi gert ráð fyrir að það tæki styttri tíma að gera WOW að hefðbundnu lággjaldaflugfélagi.

„Það helgast af því að það hefur enginn gert þetta áður. Fyrsta sumarið sem við fórum af stað vorum við ekki með neina hliðartekjuhugsun. Þá vorum við bara eins og hin gamaldags flugfélögin með allt inni í einu fargjaldi. Á meðan lággjaldastefnan gengur fyrst og fremst út á að þú borgar bara fyrir það sem þú notar,“ segir Skúli og heldur áfram:

„Ég er hins vegar mjög ánægður með það hvar við erum í dag. Sætanýting hefur verið vel yfir 90 prósentum sem er grundvallarforsenda. Í öðru lagi snýst þetta um hvaða prósentu og samspil þú færð fyrir sætið og allar hinar hliðartekjurnar og það hlutfall er orðið mjög ásættanlegt.“

Skúli nefnir einnig hversu mikilvægt það sé að fyrirtækið dreifi sölu- og markaðskostnaði sínum rétt og að áhersla sé lögð á markaðssetningu á netinu. Fyrirtækið hafi ekki náð að fóta sig nógu vel í þeim efnum og það útskýri að mestu þá miklu starfsmannaveltu sem hefur verið hjá fyrirtækinu.

„Við vorum í rauninni ekki með mannskap sem hafði reynslu í þessu og það er auðvelt að segja að maður hefði viljað hafa þessa vitneskju frá fyrsta degi. En allt þetta fólk sem hefur verið hjá okkur er allt hæft og gott fólk en hefur kannski ekki alltaf verið samstiga um að fara alla leið í þessari ákveðnu stefnu,“ segir Skúli.

Hann segir að hópurinn sem myndar flugrekstrarsvið fyrirtækisins, sem er um 75 prósent af starfsmannafjöldanum, hafi að mestu verið óbreyttur frá upphafi.

„En ég held að við höfum á heildina litið verið mjög lánsöm í þessum mikla rekstri þar sem við fórum úr núlli í tíu milljarða veltu. Þetta hefði aldrei tekist nema með frábæru fólki og góðum liðsanda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×