Skoðun

Síðbúið svar til Bjarna Randvers

Stefán Karlsson skrifar
Bjarni Randver svarar grein minni um guðsmynd íslams og kristni. Svar Bjarna er málefnalegt enda er hann vandaður fræðimaður. Hann fer ekki út í persónulegar svívirðingar eins og margir þeir sem vilja kæfa umræðuna nota gegn þeim sem vilja brjótast út úr vítahring þöggunar og pólitískrar rétthugsunar. Engu að síður finnst mér Bjarni tipla svolítið á tánum og sneiða framhjá kjarna málsins. Hann virðist taka undir margt það sem ég segi í greininni en reynir samt að klóra í bakkann með því að tala um að finna megi lögmálshyggju í kristindóminum og með því að tala um að kristindómur og stjórnmál séu alls ekki eins aðskilin og ég vilji gefa í skyn.

Nú vil ég taka fram að ég er síður en svo á móti múslimum heldur þeirri túlkun á íslam sem kallast íslamismi og hefur reynst vera alger helstefna þar sem honum hefur verið hrundið í framkvæmd. Mig langar því til að beina umræðunni að því sem ég vildi koma til skila í grein minni frekar en að svara Bjarna frekar.

Margir íslamistar kvarta yfir því að þeir séu fórnarlömb nýlendustefnunnar og hentistefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum. Það er margt til í því en múslimar verða fyrst og fremst að líta í eigin barm og leysa innri vandamál í löndum sínum. Unnt er að virða trú og tilbeiðslu múslima og standa á sama tíma gegn íslam sem algildri stjórnmálastefnu. Alþjóðleg og blóðug barátta íslamistanna fyrir upptöku sjaríalaganna, hinna helgu laga íslams, er andstæð vestrænu frelsi, lýðræði og jafnréttishugsjón og leiðir til ófarnaðar og jafnvel fullkomins hryllings eins og í Afganistan undir stjórn talíbana og í Sýrlandi og Írak undir stjórn ISIS-manna.

Sjaríalögin urðu til á fyrstu 200 árum eftir dauða Múhameðs. Þau standast ekki nútímahugmyndir um mannréttindi og fela í sér skelfilegt ófrelsi og réttindaleysi kvenna. Sjaríalögin eru stjórnarskrá Sádi-Arabíu. Þau eru við lýði í Íran, Pakistan, Jemen, Súdan og breiðast hratt út með íslam í Afríku sunnan Sahara. Þau eru á stefnuskrá allra íslamskra stjórnmálahreyfinga frá Marokkó í vestri til Filippseyja í austri. Íslamistar meðal múslima í Bretlandi jafnt sem í Svíþjóð gera kröfu til þess að fá sjaríalögin viðurkennd í samfélagi múslima í þessum löndum. Íslamismi er herská stjórnmálastefna og henni verður að svara á vettvangi stjórnmálanna með málefnalegri gagnrýni. Afpólitísering íslams er eina von múslima, að öðrum kosti verður frelsi í löndum þeirra aldrei annað en fjarlægur draumur. Slík afpólitísering íslams er eina leið trúarinnar út úr þeim pólitísku ógöngum sem hún er nú stödd í.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×