Skoðun

Hvers vegna á MR að vera öðru vísi en hann er?

Ásta Huld Henrýsdóttir skrifar
Öllum finnst gott að hafa val og ekki síður frelsi til að velja. Landið okkar býður upp á það í miklu víðari skilningi en talsvert stærri ríki geta státað sig af, þess vegna þykir mörgum gott að búa hér. Það er alls ekki gefið úti í hinum stóra heimi að allir fái grunnmenntun, geti valið hvar þeir búi, tekið þátt í vali á forseta landsins og ríkisstjórn svo ég tali ekki um valið sér maka óháð kyni, litarafti og trúarskoðunum. Hvers vegna þarf þá að steypa alla skóla í sama mót?

Það getur vissulega verið kostur fyrir einhverja framhaldsskólanemendur að ljúka námi á þremur skólaárum eða skemur, en nú þegar geta viðkomandi nemendur líka valið skóla sem býður upp á þann möguleika. Það aftur á móti að skikka alla skóla undir sama hatt eyðir út sérkennum þeirra og gerir valið ekki eins spennandi fyrir þá sem hafa frelsið til að velja. Þessi umræða menntamálaráðherra um það að stytta námið í öllum framhaldsskólum niður í 3 ár gengur því í berhögg við tóninn í samfélaginu okkar.

Þeir nemendur sem velja sér að stunda nám í Menntaskólanum í Reykjavík eru að velja það vegna þess að fyrirkomulagið þar er eins og það er og hefur alltaf verið. Viss gæðastimpill er á náminu þar og er hvergi slegið slöku við, ég get ekki séð miðað við námsálagið sem er þar öll árin fjögur að neinu sé hægt að þjappa saman því um leið og farið er að fella út greinar hverfa sérkennin.

Margir gagnrýna að fyrirkomulagið þar og að allar áherslur séu ekki í takt við tímann, en hvað veit maður um tímann sem framundan er og hvað í rauninni búi okkur best undir hann? Hættum að ætlast til þess að allir skólar séu steyptir í sama mót, höfum valkostina eins marga og ólíka og kostur er, svo það séu í alvörunni forréttindi að hafa frelsi til að velja.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×