Skoðun

Menningarnótt á næsta leiti

Dóra Magnúsdóttir skrifar
Reykjavík hefur á umliðnum árum og áratugum breyst í stórskemmtilega hátíðaborg. Hér er tónlist, bókum, barnamenningu, tísku, mannréttindum, kvikmyndum, beikoni, vetri, fjölmenningu og fleiru fagnað á sérstökum hátíðum sem fylla þétt viðburðadagatal borgarinnar. Og nú stendur móðir allra hátíða fyrir dyrum, nefnilega sjálf Menningarnótt, en hún verður haldin í 19. sinn þann 23. ágúst næstkomandi.

Sérstaða hátíðarinnar felst einkum í því hversu margir sjálfsprottnir viðburðir prýða borgina ásamt nokkrum stórum lykilviðburðum. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hversu margir rekstraraðilar í miðborginni, listamenn og jafnvel heimili bjóða íbúum og gestum borgarinnar upp á fjölmarga ólíka viðburði, svo sem tónlist, myndlist, dans, gjörninga, jóga, upplestur, bíómyndir, föndur af ýmsu tagi og vísindi að ógleymdu hinu vinsæla vöfflukaffi, þeim heimilislega viðurgjörningi.

Á vefsíðunni menningarnott.is má finna alla viðburði hátíðarinnar sem stendur frá kl. 11.00 til kl. 23.00. Þrátt fyrir nafnið fer Menningarnótt eingöngu fram yfir daginn og fram á kvöld og lýkur með stórfenglegum flugeldum sem að þessu sinni verður skotið upp undir tónaflóði Rásar 2. Um 400 viðburðir eru í boði, allir rækilega kynntir á vefsíðunni, en prentuð dagskrá mun einnig birtast í Fréttatímanum.

Ég viðurkenni að ég hef sjaldnast búið til mína eigin dagskrá, eins og vefurinn býður upp á að sé gert með einföldum hætti, heldur hef ég valið um það bil þrjá eða fjóra viðburði sem ég vil alls ekki missa af en látið svo berast með straumnum og upplifað það sem fyrir augu ber á hverjum stað. Hitt mann og annan og upplifað stemninguna, brosin og menninguna. Þeir sem hins vegar eru skipulagðari hafa tól og tæki til að búa til skothelda sérsniðna dagskrá.

Miðbænum hefur stundum verið líkt við stássstofu á stóru heimili. Þegar blásið er til veislu eru húsgögn færð til og hefðbundinni uppsetningu heimilisins breytt í eitt skipti til að veislan megi takast sem best. Þetta er einmitt það sem gerist í og út frá miðbæ Reykjavíkur þann 23. ágúst næstkomandi, bæði vegna Reykjavíkurmaraþonsins og Menningarnætur. Reykjavík býður gestum og íbúum borgarinnar að ganga í bæinn og njóta alls þess besta í menningu sem völ er á öllum að kostnaðarlausu. Þess vegna verða nokkuð víðtækar lokanir þennan dag í miðborginni; til að liðka fyrir umferð og tryggja öryggi fólks eins og hægt er. Reynt verður eftir bestu getu að tryggja aðgengi fatlaðra að miðbænum og upplýsingar um fyrirkomulag lokana hafa verið sendar íbúum. Ef fólk þarf af sérstökum ástæðum að fara inn í bæjarhluta sem verður lokað er hægt að sækja um það sérstaklega. Almenningi er bent á að hjóla eftir því sem fólk hefur tök á eða nota strætó enda eru ókeypis ferðir þennan dag. Allar upplýsingar um samgöngur og aðgengi er að finna á menningarnott.is.

Mikilvægt er að við sýnum hvert öðru lipurð í umferðinni og allri umgengni og að við áttum okkur á því að það er bara ein Menningarnótt á ári og að hún er algerlega frábær.




Skoðun

Sjá meira


×