
Tréhestahugsun í menntamálum
Ennfremur er bent á að nýnemar við HÍ standi sig misvel á könnunarprófum í stærðfræði eftir því frá hvaða framhaldsskóla þeir koma. Í ljósi þess hve munurinn er mikill milli einstakra skóla þurfa þeir skólar sem koma lakast út að fara í naflaskoðun og reyna að bæta sinn árangur. Þessi sláandi niðurstaða hefur í raun legið fyrir um langt skeið, en einhverra hluta vegna hafa hæstráðendur menntamála kosið að sitja með hendur í skauti.
En hvaða tillögur lagði sérfræðingahópurinn fram til úrbóta? Í sem stystu máli leggur hópurinn áherslu á að bæta þurfi menntun kennara, auka símenntun og snurfusa nokkrar kennslubækur. Auk þess er lagt til að komið verði á fót fagráði sem m.a. hafi það hlutverk að hafa eftirlit með kennslu og árangri í stærðfræði ásamt því að stjörnumerkja kennslubækur í stærðfræði. Að áliti skýrsluhöfunda virðist sem stærðfræðikennurum sé ekki treystandi til að meta gæði kennslubóka.
Ýmsar tillögur sérfræðingahópsins eru vissulega góðra gjalda verðar en skýrslan fær engu síður falleinkunn fyrir að hafa ekki tekið á grundvallaratriðum sem krefjast skýrra svara. Varðandi umfjöllun hópsins um náttúrufræðibraut ásamt þeim niðurstöðum sem henni eru tengdar var nauðsynlegt að draga eftirfarandi lykilspurningu fram í dagsbirtuna: Er skynsamlegt að sem flestir framhaldsskólar starfræki náttúrufræðibraut?
Fá skemmri skírn
Svarið gæti vissulega verið já, ef við höfum aðgang að ótakmörkuðu fjármagni. En það er útópía sem gagnslaust er að ræða nánar. Ef við höldum okkur við raunveruleikann þá liggur fyrir að flestir framhaldsskólar búa við tiltölulega þröngan efnahag og það eru fá teikn á lofti um viðsnúning á því sviði. Kröfur um sparnað og hagræðingu gerast æ háværari enda á almenningur skýlausan rétt á því að skattfénu sé vel ráðstafað. Gegn þessum straumi tímans sitja einstakir skólastjórnendur sem verja lendur síns skóla með öllum tiltækum ráðum. Enginn vill missa spón úr aski sínum. Marghrjáð náttúrufræðibraut skal hafin til hæstu hæða og bera uppi merki skólans um ókomna framtíð. Hvað sem tautar og raular. Þeir neita að horfast í augu við þann veruleika að innistæða brautarinnar er horfin. Fyrir löngu síðan.
Sökum langvarandi fjárhagsþrenginga hafa sömu skólar átt í stökustu vandræðum með að bjóða upp á námsáfanga sem skilyrðislaust ættu að standa nemendum til boða á náttúrufræðibraut. Til að halda skútunni á floti eru nauðsynlegir/æskilegir áfangar á náttúrufræðibraut miskunnarlaust skornir niður. Námi nemenda er þar með beinlínis stefnt í voða hvað frekara framhald varðar. Þeir fá skemmri skírn. Þeir borga brúsann að lokum.
Það er í rauninni ljótur leikur ástundaður þegar sumir skólar laða til sín nemendur undir því yfirskini að þar sé starfrækt metnaðarfull náttúrufræðibraut þegar raunin er sú að brautin stendur ekki undir nafni. Allir gjalda afhroð. Nemendur eru grátt leiknir. Orðstír skólans bíður hnekki. Væntingar skólastjórnenda um að von sé á betri tíð með blóm í haga er rödd hrópandans í eyðimörkinni. Skólaþróunin undanfarin 15-20 ár talar sínu máli. Ef horft er til framtíðar þá er krafan sú að skólarnir greini sig hver frá öðrum í auknum mæli og erji sinn akur.
Óhrekjanleg staðreynd
Flestir framhaldsskólar eiga sitt flaggskip, ef svo má að orði komast, og sumir skólar eiga reyndar nokkur flaggskip innan sinna raða. Það er löngu orðið tímabært að ráðamenn átti sig á þeirri óhrekjanlegu staðreynd að náttúrufræðibraut getur ekki verið flaggskip allra skóla þegar hún er í raun veikasti hlekkur sumra skóla. Vissulega getur verið erfitt fyrir einstaka skólahugsuði, sumir hverjir lokaðir í eigin heimi, að horfast í augu við þá staðreynd að forsendur tiltekinnar námsbrautar séu brostnar með öllu og að hún sé í dauðateygjunum. En skólapólitík snýst ekki um draumsýnir eða einstaka skólastjórnendur. Þess vegna er það í verkahring hæstráðenda menntamála að bregðast við með afgerandi hætti og draga menn niður úr skýjunum og koma þeim niður á jörðina. Nemendum til hagsbóta. Þjóðfélaginu til hagsbóta.
Sannleikurinn er einfaldlega þessi: Fjölmargir framhaldsskólar eru vel í stakk búnir til að starfrækja öfluga og metnaðarfulla náttúrufræðibraut. Þeir skila mjög hæfum nemendum til háskólanáms í stærðfræðitengdum greinum. Það er þeirra gersemi. Styrkur annarra skóla liggur á allt öðrum sviðum og að þeim styrkleika ber að hlúa. Það nær engri átt að allir framhaldsskólar séu að atast í því sama með mjög misjöfnum árangri. Skólar fá sinn dóm af því sem vel er gert.
Skoðun

Allt mun fara vel
Bjarni Karlsson skrifar

Normið á ekki síðasta orðið
Katrín Íris Sigurðardóttir skrifar

Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?
Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar

Við lifum á tíma fasisma
Una Margrét Jónsdóttir skrifar

Örvæntingarfullir bíleigendur í frumskógi bílastæðagjalda
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Hinir miklu lýðræðissinnar
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Kolefnishlutleysi eftir 15 ár?
Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir skrifar

Gleði eða ógleði?
Haraldur Hrafn Guðmundsson skrifar

Tískuorð eða sjálfsögð réttindi?
Vigdís Ásgeirsdóttir skrifar

Ráðherrann og illkvittnu einkaaðilarnir
Freyr Ólafsson skrifar

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí
Snæbjörn Guðmundsson skrifar

Er einhver hissa á fúskinu?
Magnús Guðmundsson skrifar

Þegar hæstaréttarlögmenn kynda undir mismunun og kerfisbundnu ofbeldi
Sigríður Svanborgardóttir skrifar

Réttmætar áhyggjur eða ósanngjarnar alhæfingar?
Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

„Þótt náttúran sé lamin með lurk!“
Sigurjón Þórðarson skrifar

Ekkert ævintýri fyrir mongólsku hestana
María Lilja Tryggvadóttir skrifar

Nám í skugga óöryggis
Sigurður Árni Reynisson skrifar

Tæknin á ekki að nota okkur
Anna Laufey Stefánsdóttir skrifar

Ytra mat í skólum og hvað svo?
Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar

Stjórnun, hönnun og framkvæmd öryggisráðstafana í Reynisfjöru
Magnús Rannver Rafnsson skrifar

Sorglegur uppgjafar doði varðandi áframhaldandi stríðin í dag
Matthildur Björnsdóttir skrifar

Tóbakslaust Ísland! - Með hjálp stefnu um skaðaminnkun
Bjarni Freyr Guðmundsson skrifar

Meðsek um þjóðarmorð vegna aðgerðaleysis?
Pétur Heimisson skrifar

Tími ábyrgðar í útlendingamálum – ekki uppgjafar
Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Takk starfsfólk og forysta ÁTVR
Siv Friðleifsdóttir skrifar

Þjóðarmorðið í Palestínu
Arnar Eggert Thoroddsen skrifar

Eldra fólk, þolendum ofbeldis oft ekki trúað
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Tölfræði og raunveruleikinn
Jón Frímann Jónsson skrifar

Umgengnistálmanir – brot á réttindum barna
Einar Hugi Bjarnason skrifar

Frá dulúð til daglegs lífs: Hvernig nýjasta gervigreindin vinnur með þér – og gerir þig klárari
Sigvaldi Einarsson skrifar