Skoðun

Prófessor í útúrsnúningi

Steinþór Skúlason skrifar
Vegna greinar Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskólann, í Fréttablaðinu 3. júlí þar sem hann leggur út frá grein þar sem vitnað var í undirritaðan er rétt að eftirfarandi komi fram.

Bændasamtökin gerðu fyrir nokkrum árum samning við ríkisvaldið um að hluti af stuðningi við sauðfjárrækt væri færður úr beingreiðslum yfir í svokallað gæðastýringarálag. Markmiðið var að stuðla að betri búskaparháttum og betri ímynd sauðfjárræktar.

Fram hefur komið að um 93% framleiðslunnar uppfylla þær kröfur sem gerðar eru og hefur því tekist mjög vel til að sveigja framleiðsluna að þessum kröfum. Það er Bændasamtakanna að svara fyrir það hvort kröfur gæðastýringar gangi nógu langt í atriðum sem lúta að landvernd eða öðru. Engin beiðni hefur komið fram frá Landssamtökum sauðfjárbænda eða Markaðsráði kindakjöts til Landssamtaka sláturleyfishafa um sérmerkingar vegna gæðastýringar og slíkri beiðni því ekki verið hafnað.

Einstaklingsmerkt

Undirritaður var spurður um það hvort þetta kjöt væri aðgreint frá öðru kjöti í sláturhúsum landsins. Það hefur ekki verið gert í neinu sláturhúsi svo kunnugt sé. Allt kjöt er einstaklingsmerkt framleiðanda í sláturhúsum svo það er vel framkvæmanlegt að aðskilja þessi 7% sem ekki eru undir gæðastýringu frá öðru kjöti. Það væri þá gert á grundvelli búskaparhátta en ekki þess að vara utan gæðastýringa sé verri í kjöteiginleikum. Kjötmat og eftirlit dýralækna tryggja þau gæði varanna.

Það er fráleitt hjá prófessornum og útúrsnúningur að sá tortryggni um gæði hluta lambakjötsframleiðslunnar og gefa í skyn að verið sé að „troða“ lakari vöru í neytendur. Hann á að vita betur.

Það er einnig útúrsnúningur að leggja út frá hugsanlegum merkingum. Að sjálfsögðu yrði engin vara merkt „Ekki gæðastýrð“ heldur 93% vörunnar merkt „Gæðastýrð“.

Aukinn áhugi almennings á því hvernig vörur verða til er mjög af hinu góða og ber að fagna. Íslenskur landbúnaður byggir á fjölskyldubúum sem eru í góðri sátt við umhverfið og styrkleiki okkar landbúnaðar í samanburði við verksmiðjubúskap víða erlendis.

Það er svo í besta falli afar ósmekklegt að prófessorinn í lok greinar sinnar leggi út frá eigin útúrsnúningi og dylgi um slæm viðhorf annarra.




Skoðun

Sjá meira


×