Lífið

Frumkvöðlar í reggítónlist

Gunnar Leó skrifar
Ýmislegt hefur gengið á hjá sveitinni á þessum tíu árum.
Ýmislegt hefur gengið á hjá sveitinni á þessum tíu árum.
Hjálmar urðu í raun til fyrir ákveðna slysni, þegar við vorum að taka upp reggí með Rúna Júl í Geimsteini árið 2004,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson, gítarleikari í hljómsveitinni Hjálmum en hún fagnar tíu ára afmæli í ár.

Í því tilefni er ýmislegt á döfinni hjá sveitinni og má þar nefna afmælistónleika í Eldborgarsal Hörpu í september og þá mun líta dagsins ljós vegleg safnplata með bestu lögum Hjálma. „Platan sem mun bera heitið Skýjaborgin mun innihalda samtals 30 lög og þar af þrjú nýleg,“ bætir Guðmundur Kristinn við.

Fyrsta plata Hjálma kom út árið 2004 og ber titilinn Hljóðlega af stað en óhætt er að segja að Hjálmar hafi ekki farið hljóðlega af stað, því platan varð gífurlega vinsæl, náði gullsölu og var valin rokkplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum auk þess sem Hjálmar voru valdir bjartasta vonin.

„Við bjuggumst ekki við þessari velgengni til að byrja með. Ég hafði ekki mikið hlustað á reggí áður en þetta byrjaði, það var aðallega Steini sem hafði hlustað á reggí í Svíþjóð og hafði mestu reggíþekkinguna,“ útskýrir Guðmundur Kristinn.

Hjálmar eru í raun frumkvöðlar á reggísviðinu á Íslandi. „Í öllum öðrum löndum voru til reggíbönd en ekki hérna en nú er til fullt af reggíhljómsveitum og ég fagna því, reggísenan á Íslandi er flott.“

Sveitin hefur farið utan til þess að drekka í sig uppruna reggísins. „Við fórum til Jamaíka árið 2009 og tókum upp plötu, það var magnað. Við fórum meðal annars heim til Bobs Marley heitins og hittum þar son hans. Við höfum þó ekki planað neina svona pílagrímsferð í bráð.“

Hinn 1. júlí er alþjóðlegi reggídagurinn og ætla Hjálmar af því tilefni að hefja miðasöluna á afmælistónleikana sína þann dag. „Það kom auðvitað ekkert annað til greina en að nýta þenna yndislega dag í að hefja miðasöluna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.