Skoðun

Kosningaréttur kvenna 99 ára

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir skrifar
Í dag eru 99 ár frá því að Kristján 10. Danakonungur og Einar Árnason, ráðherra Íslands, undirrituðu stjórnarskrárbreytingu þar sem íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Stórafmæli kosningaréttarins er því á næsta ári og verður aldarafmælisins minnst á margvíslegan hátt allt árið.

Málþing verða haldin og alþjóðleg ráðstefna verður í október á afmælisárinu. Á vegum Landsbókasafnsins og Þjóðminjasafnsins verða settar upp sýningar um sögu kosningaréttar í máli og myndum í samstarfi við afmælisnefndina, sem kosin var síðastliðið haust. Hátíðarhöld verða á Austurvelli 19. júní eins og 100 árum áður þegar konur fögnuðu fengnum lýðréttindum og baráttukonurnar Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason, sem varð fyrst kvenna til að setjast á þing, héldu merkar ræður.

Sinfóníuhljómsveit Íslands mun minnast tímamótanna með sérstökum tónleikum 11. júní 2015. Efnisskráin er sérlega glæsileg með tónverkum kvenna og konum í lykilhlutverkum.

Menningar- og menntastofnanir eru hvattar til að haga verkefnavali og námskrá í tengslum við afmælisárið og verða verkefni fyrir nemendur og kennara aðgengileg á vefnum.

Afmælisnefndin hvetur sem flesta til að efna til verkefna og viðburða til að minnast aldarafmælisins á næsta ári og að menn sýni frumkvæði í verkefnavali. Það er mikilvægt að sveitarfélög, menningarnefndir, kvenfélög, femínistar og önnur félagasamtök starfi saman á smærri stöðum og efni til viðburða í tilefni afmælisins og minnist frumkvöðlanna.

Það er von okkar að umfjöllun um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á næsta ári, jafnrétti kynjanna, kvennabaráttuna, kvenréttindi og kosningaréttinn verði lífleg og fjölbreytt allt árið 2015. Við hvetjum sem flesta til að fjalla um aldarafmæli þessara mikilvægu réttinda og blásum til nýrrar sóknar í jafnréttismálum.

19. júní fyrir 99 árum markaði mikilvægan áfanga í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku í samfélaginu og þess að bæði karlar og konur væru með þar sem ráðum er ráðið. Í því felast grundvallarmannréttindi. Stöndum vörð um þau og nýtum kosningaréttinn þegar hann býðst.

Til hamingju með daginn.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×