Skoðun

Vitleysa leiðrétt

Sigurjón Þórðarson skrifar

Þröstur Ólafsson ritar grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Að vernda vitleysuna, eða…?”

Í greininni er því haldið fram að helstu nytjastofnar á Íslandsmiðum hafi verið að eyðast um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Sú fullyrðing stenst enga skoðun og er í raun alger vitleysa ef eitthvert mark má taka á tölfræði Hafró. Í skýrslum Hafró kemur fram að á tímabilinu 1980–1985 hafi bæði nýliðun þorsks verið meiri og viðmiðunarstofn stærri á Íslandsmiðum en hann var áætlaður 2008–2013.



Það að veiðin á seinna tímabilinu sé helmingurinn af því sem hún var á því fyrra hefur hvorki skilað meiri nýliðun né stærri viðmiðunarstofni. Allt bendir því til þess að veiðistjórnunin hafi verið algerlega misheppnuð.



Ekki ætla ég að elta ólar við fráleita vitleysu eins og þá að setja vöxt og viðgang fiskistofna í samhengi við gróður á hálendi landsins. Ég ætla einnig að láta Vestfirðingum og íbúum Djúpavogs eftir að deila við hagfræðinginn um hagræðingu kvótakerfisins en mér finnst þó rétt að benda á vitleysuna við að setja þá hamingju alla í samhengi við afskriftir, lækkað fasteignaverð, minni afla, skuldsetningu og aldinn fiskiskipaflota landsmanna.



Einhver kann að ætla að þrátt fyrir að framangreindur samanburður gefi kvótakerfinu falleinkunn, þá megi búast við betri tíð og aflaaukningu á næstunni, en svo er alls ekki þar sem stofnvísitala þorsks lækkaði í ár annað árið í röð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×