Skoðun

Hvað er líkt með risaeðlu og leikskólakennara?

Unnur Brynja Guðmundsdóttir skrifar
Jú, risaeðlur eru útdauðar og það stefnir óðum í að eins fari fyrir leikskólakennurum. Þeim fækkar hratt vegna aukins álags og launa sem ekki eru í neinu samræmi við erfiðið. Ég útskrifaðist árið 1992 ásamt um 75 öðrum leikskólakennurum og hef starfað á leikskóla síðan. Leikskólakennarastarfið hefur eflst og þróast mikið í millitíðinni. Á þessum árum hef ég vaxið í mínu starfi og verið dugleg að safna í viskupokann sem ég hef svo komið áleiðis. Leikskólar landsins hafa enda eflst og fagleg kennsla okkar dafnað.

Leikskólakennaranámið hefur einnig vaxið á þessum tíma og er komið í mastersnám.

En það er ekki bara fagvitundin sem hefur aukist með árunum heldur hafa barnahóparnir einnig stækkað. Fleiri börn eru á hvern starfsmann og á minna rými. Með þessari þróun hefur álagið á kennarann aukist gríðarlega. Hins vegar hafa launin ekki dafnað jafn vel miðað við fyrrnefnt álag. Nú er ég komin yfir fertugt, er búin að fá nóg og ætla að feta aðra braut. Fjölmargir leikskólakennarar fara í önnur störf eftir fertugt; stjórnunarstörf innan sama geira eða taka að sér sérkennslu, minnka við sig starfshlutfall eða leita á önnur mið. Kennurum sem starfa á gólfinu með börnunum fer fækkandi og ekki freista launin og hvað þá álagið. Nú í vor útskrifuðust fimm leikskólakennarar frá HÍ.

En það er auðvitað með söknuði sem ég kveð leikskólastarfið í Reykjavíkurborg en ég hóf störf þegar ég var um 17 ára. Ég mun ekki fá eins mikið af hvatningu og hrósi líkt og ég geri frá nemunum mínum og ekki mun ég fá hópknús er ég mæti í byrjun dags til starfa.

Kæru sveitarstjórnir, breytinga er þörf!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×