Skoðun

Tvær milljónir á mann!

Guðbergur Rúnarsson skrifar
Sjávarútvegur er aðalatvinnuvegurinn á Vestfjörðum en fiskeldinu vex ásmegin, sérstaklega á suðurfjörðum Vestfjarða. Þar eru byggðarlögin Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur og nokkurt dreifbýli. Á meðan vel árar í sjávarútvegi má gera ráð fyrir að atvinnulíf í þessum landshluta verði áfram sterkt og aukið fiskeldi styrkir landshlutann enn frekar.

Íbúafjöldi er nú 1.246 í Vesturbyggð og Tálknafirði. Í ár má reikna með að slátrað verði 3.500 tonnum af laxi á suðurfjarðasvæðinu. Sé verðmæti slátraðs fisks sett í samhengi við íbúafjölda á svæðinu eru þau um tvær milljónir króna á hvert mannsbarn.

Í Færeyjum búa rúmlega 48 þúsund íbúar. 40% af útflutningsverðmætum Færeyinga koma frá laxeldi. Sambærileg tala í Færeyjum, en Færeyingar slátruðu rúmlega 76 þúsundum tonnum af laxi á síðasta ári, var rúmlega 1,1 milljón króna á hvern íbúa.

Framleiðsla á laxfiskum mun fljótlega tvöfaldast á suðurfjörðunum. Gera má ráð fyrir að fljótlega verði verðmæti frá fiskeldi um þrjár milljónir króna á hvern íbúa á suðurfjörðum Vestfjarða. Útflutningur laxfiskaafurða frá suðurfjörðunum mun því auka útflutningstekjur þjóðarbúsins umtalsvert. Framlag suðurfjarðanna í formi aukinna gjaldeyristekna og útflutningsverðmæta er því mikilvægt fyrir þjóðarbúið.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að bæta samgöngur á suðurfjörðunum eins fljótt og auðið er. Því það má gera ráð fyrir að flutningar til og frá svæðinu aukist verulega og verði fljótlega um 15.000 tonn á ári í kringum eldið. Útflutningsverðmæti 7.500 tonna framleiðslu á núverandi verðlagi eru rúmir 5 milljarðar króna. Ekki er ósennilegt að flutningsmagn á vegakerfi suðurfjarða muni þrefaldast frá því sem það var og voru vegirnir ekki góðir fyrir. Vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum er því einnig uppbygging á innviðum svæðisins til að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×