Skoðun

Ákall til Reykvíkinga – tökum tillit

Snorri Snorrason skrifar
Undirritaður hefur ekki lagt það í vana sinn að skrifa blaðagreinar á liðnum árum, en nú er svo komið að erfitt er að sitja hjá. Reykjavíkurflugvöllur á að vera í Vatnsmýrinni til framtíðar.

Því miður eru til einstaklingar í borgarstjórn Reykjavíkur sem hunsa það að taka tillit til landsbyggðarinnar. Við Íslendingar eigum allir rætur úr dreifðum byggðum landsins. Við erum ein stór fjölskylda. Að það fyrirfinnist einstaklingar í borgarstjórn sem er nákvæmlega sama um hvernig öryggi og samgöngum við landsbyggðina er háttað er ótrúlegt. Nú er rætt um að byggja á næstu árum upp Þjóðarsjúkrahúsið á Landspítalalóðinni, svo nálægð við flugvöll er lífsnauðsynleg. Að halda öðru fram er fásinna.

Við sem búum í 10 mínútna fjarlægð frá hátækniháskólasjúkrahúsi og njótum þess öryggis sem það veitir getum ekki komið því þannig fyrir að ástandið á landsbyggðinni verði lakara en það er í dag. Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga, borgarfulltrúar sem horfa fram hjá þeirri staðreynd eru ekki starfi sínu vaxnir og axla ekki þá ábyrgð sem höfuðborg á að gera.

Að ræða um flutning innanlandsflugsins til Keflavíkur er ekki dæmi um góða stjórnvisku. Við Íslendingar búum á eldfjallaeyju, harðbýlu landi, eigum takmarkaða fjármuni, nægjanlegt landrými og þurfum á varaflugvelli fyrir Keflavík að halda, sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni veitir.

Í nágrannalöndum okkar eru bæði flugvellir einn eða fleiri í nálægð við borgir, svo ekki sé talað um lestarstöðvar sem eru inni í miðborgum og taka talsvert landrými. Við erum allt of fá til þess að koma upp lestarsamgöngum, það þarf milljónasamfélög til. Þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, setja það á oddinn að samgöngur séu öruggar og tíðar innanlands.

Gleymum ekki þeirri staðreynd, að sá gríðarlegi fjöldi erlendra ferðamanna sem kemur til landsins er að skoða íslenska náttúru á landsbyggðinni. Þannig að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu njótum arðsins af tekjunum sem þeir skilja eftir. Að sama skapi eiga íbúar á landsbyggðinni skýlausan rétt á að samgöngur við Reykjavík séu tíðar og öruggar í öllu tilliti. Einnig er fjöldi einstaklinga sem fer daglega frá Reykjavík með flugi til þess að sinna störfum sínum á landsbyggðinni. Borgin á sýna metnað í því að hlúa að þeim störfum sem tengjast flugvellinum í stað þess að hrekja hann í burtu, sem hún virðist gera leynt og ljóst.

Það má margt lagfæra í Vatnsmýrinni, fegra svæðið, færa og eða lengja brautir úti í sjó og byggja flugstöð sem sómi er að.

Flugvélar framtíðarinnar munu örugglega verða hljóðlátari og taka styttri brautir.

Kæru Reykvíkingar tökum tillit til þeirra sem búa í dreifðum byggðum landsins, þetta er líka fólk með langanir og þrár eins og við sem hér búum. Myndum þjóðarsátt um tilvist Reykjavíkurflugvallar til framtíðar. Tökum tillit til þess þjóðarvilja sem kom fram í könnuninni „Hjartað í Vatnsmýrinni“ sem fram fór nýlega. Veitum ekki þeim flokkum stuðning sem er slétt sama um samlanda okkar.




Skoðun

Sjá meira


×