Lífið

Stýra ljósunum með andardrættinum

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Anna Þorvaldsdóttir frumflytur verk sitt með ICE í Hörpu á morgun.
Anna Þorvaldsdóttir frumflytur verk sitt með ICE í Hörpu á morgun. Vísir/Vilhelm
Þetta er nokkuð stórt verkefni sem hefur verið í bígerð í tvö og hálft ár,“ segir tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir sem heimsfrumflytur verk sitt In the Light of Air í Hörpu annað kvöld.

Það er hinn virti bandaríski nútímatónlistarhópur International Contemporary Ensemble, ICE, frá New York sem flytur verkið ásamt Önnu en hópurinn sérpantaði verkið. Verkið er umfangsmikið, fjörutíu mínútna langt og í fjórum þáttum sem bera nöfnin Luminance, Serenity, Existence og Remembrance.

„Þau vildu langt verk sem rúmaði heila tónleika. Ég vildi semja það fyrir fáa hljóðfæraleikara þar sem planið er að flakka um heiminn með verkið. Það er ótrúlega gaman að geta frumflutt það hér á Listahátíð en svo förum við til Washington og New York,“ segir Anna sem stýrir rafhljóðum og er með innsetningar úr Klakaböndum Svönu Jósepsdóttur á tónleikunum.

„Þetta er miklu meira en bara tónleikar en með okkur eru tæknimenn og ljósahönnuður sem lætur ljósin stýrast af andardrætti hljóðfæraleikarana sem gefur áhorfendum sjónræna upplifun.“

Verk Önnu eru flutt reglulega í Evrópu og í Bandaríkjunum og hafa hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun. Hún hlaut Norrænu tónlistarverðlaunin árið 2012 fyrir hljómsveitarverkið Dreymi.

Anna hlakkar mjög til að flytja verkið á Íslandi en gefur sér lítinn tíma sjálf til að flakka á milli viðburða á Listahátíð. „Ég ætla að reyna að sjá eins mikið og ég get en er að æfa alla helgina og svo förum við út fljótlega eftir helgi til að flytja verkið í Washington.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.