Skoðun

Óvissan um áhrif brennisteinsmengunar

Sigrún Pálsdóttir skrifar
Mosfellingar hafa ekki farið varhluta af brennisteinsmengun frá virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum frekar en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Uppúr 2007 fór að bera á aukinni tæringu málmhluta utandyra í Mosfellsbæ. Í hverfinu þar sem ég bý ryðguðu þök húsa, bílar, verkfæri, póstkassar og aðrir málmhlutir á ógnarhraða. Til að byrja með taldi ég að á tæringunni væru eðlilegar skýringar en eftir að hafa rætt málið við verkfræðing fóru að renna á mig tvær grímur. Þetta samtal varð síðan til þess að ég fór á stúfana og ræddi ég við jarðefnafræðing sem var áður sérfræðingur á Orkustofnun og gefið hafði þau ráð í tengslum við virkjun á Hengilssvæðinu að settur yrði upp hreinsibúnaður vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Prófessorinn hafði lært í Bandaríkjunum en þar er bannað með lögum að reisa slíkar virkjanir án hreinsibúnaðar – eins og víðast hvar annars staðar.

Ég hélt síðan áfram rannsókn minni og bar þessi mál undir sérfræðing á Umhverfisstofnun og félaga mína í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar. Úr varð að sett voru upp tæki til að mæla brennisteinsvetnismengun frá Hengilssvæðinu í áhaldahúsi bæjarins. Þar voru mælitækin þó aðeins í nokkra mánuði.

Á þeim stutta tíma sem mælingar stóðu yfir fór magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti í Mosfellsbæ aldrei yfir viðmiðunarmörk á sólarhring en mengunarskotin voru þó oft við þau mörk á klukkustund og nokkrum sinnum langt yfir mörkum miðað við 5 mínútna meðaltal.

En hvað segja viðmiðunarmörkin um áhrif brennisteinsvetnis á umhverfið? Satt best að segja er lítið um þau vitað.

Það er þekkt að lofttegundin veldur tæringu á málmum og sest á gæðamálma sem vegna frábærra leiðnieiginleika eru gjarnan notaðir í snertlur í útvarps- og hljóðupptökutækjum og öðrum fjarskipta- og rafeindabúnaði. Þeir sem aka um Hellisheiði geta líka séð hvernig tæringin hefur leikið þrjár kynslóðir háspennumastra en áratuga gömul möstur fóru ekki að ryðga fyrr en boranir hófust fyrir alvöru eftir árið 2000.

Stóra málið er auðvitað að ekki er vitað í hve miklu magni brennisteinsvetni þarf að vera til að tæra málma. Áhrif brennisteinsvetnis á heilsufar og gróður eru heldur ekki vel þekkt. Þó er vitað að fylgni er milli magns brennisteinsvetnis í andrúmslofti og lyfjanotkunar asmasjúklinga og sannað að gróðurskemmdir eru miklar þar sem hlutfallið er hátt.

Þessi óvissa um áhrifin og miklir fjárhagslegir hagsmunir íbúa í Mosfellsbæ urðu til þess að ég óskaði eftir að tækin yrðu sett upp aftur sem gerist vonandi fljótlega.

Almennt séð verður að telja ábyrgðarlaust að reisa jarðvarmavirkjanir í grennd við byggð án hreinsibúnaðar. Íslendingar eiga það til að vaða áfram í blindni og sitja svo uppi með óafturkræfan skaða. Getum við ekki öll verið sammála um að komið sé nóg af því? Og hvað með börnin okkar? Eiga þau ekki skilið að alast upp í heilbrigðu og öruggu umhverfi? Það finnst mér og hvet því til þess að öll áform um jarðvarmavirkjanir í grennd við þéttbýli verði lögð á hilluna þar til búið er að tryggja fjármögnun hreinsibúnaðar.








Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×