Innlent

Meirihlutinn kemur frá gistináttagjaldi

Freyr Bjarnason skrifar
Ánægð með að leggja eigi í framkvæmdir til uppbyggingar og nýsköpunar.
Ánægð með að leggja eigi í framkvæmdir til uppbyggingar og nýsköpunar. Mynd/Aðsend
„Við fögnum því alltaf þegar úthlutun á sér stað og að það sé verið að leggja í framkvæmdir bæði til uppbyggingar og til nýsköpunar,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu.

Ferðamálastofa hefur úthlutað 244 milljónum króna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Fimmtíu verkefni fengu styrk og fór sá hæsti til Skaftafells, eða tæpar 30 milljónir króna. Rúmum tíu milljónum var úthlutað til smíði nýs stiga við Gullfoss og fimmtán milljónum til endurbóta við Goðafoss, auk fleiri úthlutana. „Það er mjög mikilvægt að það komi fram að af þessum 244 milljónum eru um sextíu prósent framlag gistináttagjaldsins,“ segir Helga aðspurð.

Hún tekur fram að úthlutunin sé ótengd áætlun Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem ætlar núna á vor- og sumarmánuðum að leggja til sérstaka fjármuni til verndar þeim svæðum sem eru hvað verst sett. Spurð nánar út í úthlutunina og hvernig fjármununum var dreift á milli verkefna, segist Helga ekki þekkja úthlutunarreglurnar nákvæmlega. „En við fögnum allri uppbyggingu og ég treysti þeirri stjórn sem þarna situr fyrir því að hafa farið faglega yfir allar umsóknir og metið þær út frá eðlilegum forsendum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×