Skoðun

Einn einn tveir og barnamenning

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar
Í Reykjavík búa tæplega 25 þúsund börn sem eru sextán ára og yngri og á hverju ári er sérstök hátíð haldin þeim til heiðurs. Barnamenningarhátíð í Reykjavík er nú haldin í fjórða skipti og stendur fram til sunnudagsins 4. maí.

Búist er við að um 40 þúsund manns muni njóta þeirra 125 glæsilegu viðburða sem eru á Barnamenningarhátíð í ár. Fjölbreytni og úrval einkenna dagskrána eins og sjá má á heimasíðu hátíðarinnar www.barnamenningarhatid.is og í bæklingi sem öll leikskóla- og grunnskólabörn í Reykjavík fengu heim með sér. Í Iðnó verður sköpun og leikgleði gert hátt undir höfði í sérstöku barnamenningarhúsi undir nafninu Ævintýrahöllin. ASSITEJ Ísland – samtök um leikhús fyrir unga áhorfendur, efna til leiklistarhátíðar með vönduðum leik- og danssýningum, vinnusmiðjum og fleiri spennandi viðburðum. Víða um borgina verða alls kyns viðburðir fyrir alla aldurshópa.

Þema hátíðarinnar í ár er öryggi og taka Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Neyðarlínan höndum saman um að kenna börnum mikilvægi þess að nýta sér neyðarnúmerið 112. Skilaboðin eru þau að barn eigi ekki einungis að nota númerið þegar eldsvoða og slys ber að höndum heldur líka ef því líður illa eða einhverjum sem það þekkir líður illa. Einn einn tveir lagið var samið í þeim tilgangi af Dr. Gunna og Þórarinn Eldjárn gerði textann. Hér er eitt erindi úr laginu:

Neyðarnúmerið

Sem notast allir við

- ekki einungis

Við eldsvoða og slys –

Er líka vernd og vörn

Sem virkar fyrir börn

Ástæða þess að Barnamenningarhátíð í Reykjavík er jafnglæsileg og stór hátíð og raun ber vitni er vinna og sköpunarkraftur um 600 kvenna og manna sem standa á bak við viðburði hátíðarinnar. Allt þetta fólk á heiður skilinn fyrir að vinna að einu göfugasta markmiði sem til er, að gleðja börn.

Ömmur, afar og foreldrar eru hvött til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, og skemmta sér svo konunglega með börnunum næstu daga. Gleðilega Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2014!




Skoðun

Sjá meira


×