Skoðun

Áfram! Ný tækifæri í Hafnarfirði

Rannveig Einarsdóttir skrifar
Við framkvæmd félagsþjónustu sveitarfélaga er mikilvægt að hvetja einstaklinga til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum og styrkja til sjálfshjálpar. Vinna þarf gegn því að einstaklingar festist í óvirkri fjárhagsaðstoð eins og þróunin hefur orðið víða. Framtíð ungra einstaklinga er í húfi og því brýnt að grípa inn í og bjóða viðeigandi úrræði.

Umfang fjárhagsaðstoðar Hafnarfjarðarbæjar hefur margfaldast frá árinu 2007. Milli áranna 2012 og 2013 hækkaði fjárhagsaðstoð úr 301 m.kr. í 392 m.kr. eða u.þ.b. 30%. Stór hluti þeirra sem fá fjárhagsaðstoð er ungt fólk. Yngsti aldurshópurinn, 18-24 ára, er langfjölmennastur, næstfjölmennasti hópurinn er á aldursbilinu 25-34 ára, en fáir eru eldri en 55 ára. Samanlagt fá tveir yngstu hóparnir um 69% af fjárhagsaðstoðinni.

Þessi mikla aukning kemur m.a. til vegna þeirra sem hafa tæmt bótarétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og sækja þá um framfærslustyrk hjá sveitarfélaginu í kjölfarið. Vísbendingar eru um áframhaldandi vöxt í málaflokknum árið 2014, m.a. má í því samhengi líta til þess að árið 2013 tæmdu 188 einstaklingar með lögheimili í Hafnarfirði bótarétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og árið 2014 stefnir í að það sama geti gilt um allt að 160 einstaklinga.

Mikilvægt er að grípa inn í þessa þróun með það í huga að styðja og virkja þennan stóra hóp ungs fólks til sjálfshjálpar. Með það að markmiði hefur verið ákveðið að fara af stað með verkefnið „Áfram! – Ný tækifæri í Hafnarfirði“ sem hefst þann 3. apríl nk. Verkefnið felur það í sér að skapa öllum atvinnuleitendum á fjárhagsstyrk tækifæri til endurkomu á vinnumarkað með tilboði um tímabundið hlutastarf samhliða virkum stuðningi.

Jafnframt að tryggja óvinnufærum einstaklingum á fjárhagsaðstoð möguleika á starfsendurhæfingu, vímuefnameðferð eða öðrum úrræðum eftir þörfum hvers og eins ásamt tímabundnu hlutastarfi samhliða slíkri meðferð eða að henni lokinni. Síðast en ekki síst á að aðstoða sérstaklega ungt fólk á fjárhagsaðstoð af bótum í nám, vinnu eða til annarra skapandi verkefna.

Grundvallarbreyting

Í samræmi við inntak laga um félagsþjónustu sveitarfélaga verði sú grundvallarbreyting innleidd í reglur og verkferla fjárhagsaðstoðar Hafnarfjarðarbæjar að hún verði aðstoð til virkni, vinnu og sjálfsbjargar í stað hlutlauss fjárhagsstyrks. Þannig verði fjárhagsstyrkur án samhliða virkni, endurhæfingu eða meðferðarúrræði ekki meginregla. Fjárhagsstuðningur án tilboðs og kröfu um virkni og/eða vinnu verði undantekning og byggist ávallt á faglegu mati starfsmanna matsteymis Fjölskylduþjónustu á hagsmunum viðkomandi einstaklings.

Öllum umsækjendum um framfærslustyrk sem meta sig vinnufæra verði boðið hlutastarf í stað styrks.

Inntak þessara tillagna er í anda þeirrar virku velferðarstefnu sem einkennt hefur velferðarstefnu Norðurlanda, sérstaklega á sviði atvinnuleysistrygginga. Öll Norðurlöndin, nema Ísland, hafa sett í sína löggjöf um félagsþjónustu og fjárhagsaðstoð einhvers konar skilyrði um þátttöku í virkniúrræðum. Þrátt fyrir að slík ákvæði sé ekki sérstaklega að finna í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, er þeim út frá inntaki laganna eigi að síður heimilt að ákvarða í hvaða formi fjárhagsaðstoð er veitt.

Verkefninu „Áfram! – Ný tækifæri í Hafnarfirði“ er þannig fyrst og fremst ætlað að bæta þjónustu við notendur Fjölskylduþjónustu, skapa þeim raunhæf tækifæri til innkomu eða endurkomu á vinnumarkað og stuðla að betri nýtingu á því fjármagni sem bæjarfélagið ver til fjárhagsstuðnings í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Tilgangur fjárhagsaðstoðar verður að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar og sjálfshjálpar.




Skoðun

Sjá meira


×