Skoðun

VG segir NEI við heimilisofbeldi

Eyrún Eyþórsdóttir skrifar
Heimilisofbeldi er ekki aðeins vandamál þeirra sem búa við ofbeldið, heldur er það samfélagslegt vandamál. Það er kúgunarferli sem brýtur niður þá sem fyrir því verða og skapar vítahring sem erfitt er að rjúfa. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði viljum að borgin leggi sitt af mörkum til að rjúfa þennan vítahring og það er því mikið fagnaðarefni að tillaga okkar um átaksverkefni gegn heimilisofbeldi í Reykjavík, sem Sóley Tómasdóttir bar upp í borgarstjórn, hafi verið samþykkt samhljóma.

Vandamálið er því miður allt of stórt. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er tilkynnt um hátt í 1.000 heimilisofbeldismál árlega og um 200 konur og börn dvelja í Kvennaathvarfinu ár hvert en stór hluti þeirra fer til baka í ofbeldisaðstæðurnar. UNICEF áætlar að alls búi 2.000 til 4.000 börn á Íslandi við heimilisofbeldi. Áætlað er að aðeins 9-16% brotaþola kæri heimilisofbeldi til lögreglu.

Við í VG viljum að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að óska eftir samstarfi við stofnanir og grasrótarsamtök sem koma að málaflokknum og að samvinna þeirra verði efld. Tryggja þarf samræmt verklag, að tekið sé á vandamálum um leið og þau koma fram og þau sett í farveg með lausnarmiðuðum hætti. Þá er brýnt að miðla þekkingu á milli þeirra stofnana og grasrótarsamtaka sem koma að heimilisofbeldismálum með einum eða öðrum hætti.

Í þessu eigum við að horfa til þess mikla árangurs sem hefur náðst á Suðurnesjum en þar var ákveðið fyrir nokkrum misserum að taka heimilisofbeldismál föstum tökum með samstilltu átaki lögreglu og félagsmálayfirvalda. Þeirri nálgun svipar til verklags sem lögreglan í Noregi hefur viðhaft, en á uppruna sinn að rekja til Kanada, þar sem mat á hverju máli fyrir sig skilar sér í persónulegri nálgun og sérsniðinni úrlausn fyrir hvert heimilisofbeldismál. Reynslan sýnir að slíkt verklag skilar verulegum árangri.

Með slíku samstarfi má segja að brotaþolar fái stuðning og gerendur fái að axla ábyrgð. Heimilisofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein sem skerðir lífsgæði þeirra sem verða fyrir því og það er samfélagslega kostnaðarsamt. VG segir því NEI við heimilisofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×