Skoðun

Eineltisumræða í fjölmiðlum

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Undanfarna mánuði hafa nokkur eineltismál innan vinnustaða verið rakin í fjölmiðlum. Maður spyr sig af hverju ofbeldismál eins og einelti sé til umræðu í fjölmiðlum? Hvaða tilgangi þjónar það? Hver er bættari fyrir vikið og af hverju lenda slík mál á forsíðum fjölmiðla?

Það má leiða líkur að því að það sé að hluta til ábyrgð stjórnenda vinnustaða. Í fyrsta lagi er mikilvægt að taka strax á eineltismálum innan vinnustaða komi þau upp. Séu þessi mál hunsuð munu þau draga dilk á eftir sér og skaða bæði manneskjuna sem fyrir því verður, fyrirtækið, orðspor þess og ímynd. Þeir sem verða fyrir einelti á vinnustöðum og upplifa sem stjórnendur vinnustaðarins taki ekki mark á þeim né geri neitt í þeirra málum, upplifa sig máttarvana og einmana. Áfall þeirra verður enn annað.

Þeir leita því eftir stuðningi til vina og fjölskyldu og ræða framkomu gerandans og ekki síst vinnustaðarins í sinn garð. Sumir upplifa misréttið það mikið að þeir telja mikilvægt að málið fari í fjölmiðla til að þeir fái verðskuldaða athygli og samkennd vegna óréttlætisins sem þeim finnst þeir vera beittir. Aðrir fara ekki í fjölmiðlana en ræða þessi mál við alla sem vilja hlusta.

Umræðan óvægin og einhliða

Eineltisumræða í fjölmiðlum er óvægin og einhliða. Hún er til þess gerð að lesandinn fer að mynda sér eigin skoðun um hvort einelti hafi átt sér stað innan hlutaðeigandi vinnustaðar eða hvort þolandinn sé að gera sér það upp. Þessi skoðun lesandans er byggð á einhliða umfjöllun um málið þar sem allar forsendur fyrir slíkt mat liggja ekki fyrir. Skaðinn getur verið óafturkræfur þegar almenningsálitið er annars vegar og ekki gott að snúa slíku við sé það yfirhöfuð hægt.

Einelti er ofbeldi og fórnarlömb ofbeldis hegða sér ekki alltaf „rökrétt“ við slíkar aðstæður. Eineltismál eru erfið en ábyrgð stjórnandans er mikil og þeir verða að horfast í augu við þessi mál. Það hefur forvarnargildi því það má ekki gleyma að þessi mál eru ekki síður skaðsöm fyrir innra starf vinnustaðarins. Það getur því verið erfitt að reyna að stöðva snjóboltann þegar hann er farinn að rúlla niður hlíðina á fullum krafti.

Ef vinnustaðir taka strax á málunum með faglegum hætti, þ.e hlusta á starfsmanninn sem segir frá slíku og fá óháða utanaðkomandi fagaðila til að meta hvort einelti eigi sér stað og veiti viðeigandi málsmeðferð verður skaðinn minni. Stjórnendur vinnustaða ættu því að hafa þetta hugfast komi slík mál upp á vinnustaðnum og vera fljótir að bregðast við áður en starfsmenn og vinnustaðurinn hljóta af varanlegan skaða. Með því er hægt að minnka líkurnar á að einhliða umræða um eineltismál innan vinnustaðarins rati í fjölmiðla og skaði vinnustaðinn og starfsmenn meira en í raun þarf.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×