Skoðun

Byrjum fyrr að kenna börnum stafi og hljóð…

Kristín Einarsdóttir skrifar
Undanfarið hefur verið mikil umræða um árangur íslenskra unglingsstráka í Pisa-könnuninni. Menn velta því fyrir sér hvað fór úrskeiðis og hvað er til ráða. Við sem eigum unglingsstráka vitum hvað það getur verið erfitt að fá þá til að lesa sér til skemmtunar. Það er leiðinlegt, allar bækur of langar og leiðinlegar!

Mín skoðun er sú að við eigum að byrja að kenna börnum bókstafi og hljóð með skipulögðum hætti um 3ja til 4ra ára aldur. Á þessum aldri eru þau eins og opin óskrifuð bók og þyrstir í fróðleik.

Ef 3ja ára barn getur leikið sér í Ipad, hætt í leik, skipt um leik og farið í nýjan þá getur það örugglega líka lært bókstafi og hljóð. Það þarf að kenna börnum reglulega, skipulega og byggja ofan á þá þekkingu og reynslu barna sem þegar er til staðar, þannig að nýja þekkingin varðveitist.

Nota þarf fjölbreyttar aðferðir þar sem mestmegnis er kennt í gegnum leiki og hreyfingu. Þá fá börnin tækifæri til að nota mismunandi skynfæri. Einnig þarf umhverfi barnanna að vera „lestrarvænt“. Það geta uppalendur gert með því að hafa hluta þeirra leikfanga sem þeim býðst tengda lestrarnáminu svo sem bækur, stafi, kubbastafi, liti o.s.frv. Það er ekki bara eitthvað sem börnin nota með kennurum eða foreldrum heldur líka sjálf í leik og fá þannig tækifæri til að prófa sig áfram á sínum eigin forsendum. Ef 4ra til 5 ára barn kann flesta bókstafi og hljóð þá getur lestrarþjálfun hafist einu til tveimur árum fyrr en nú tíðkast.

Foreldrar gefa sér oft meiri tíma til að koma yngri börnunum í rúmið, lesa fyrir þau og með þeim heldur en þegar börnin eru eldri. Börn á mið- og elsta stigi grunnskóla eru oft á æfingum fram undir og yfir kvöldmat og eru sjálfbjarga um að koma sér í háttinn. Þá er bara spurt: „Ertu búinn að lesa?“ og síðan ekki söguna meir. (Höfundur talar af reynslu)

Lestrarþjálfun er því mun auðveldara að tengja daglegum venjum með yngri börnum og ef þau byrja fyrr að æfa sig eru þau komin enn lengra í þjálfuninni þegar við fullorðna fólkið missum svolítið stjórnina og yfirsýnina yfir heimanám barna okkar.

Það er sameiginlegt verkefni foreldra og skóla að þjálfa börn í lestri og því við hæfi að kennarinn kenni hljóð og tengingar í leikskólanum og foreldrar hjálpi til við þjálfun heima. Gerum þau fyrr læs!




Skoðun

Sjá meira


×