Skoðun

Flokksval Samfylkingarinnar

Reynir Sigurbjörnsson skrifar
Í Umbótaskýrslu Samfylkingarinnar sem kom út í desember 2010, segir meðal annars: „Miklu máli skiptir fyrir starf flokksins til lengri tíma, að einstaklingar sem hafa metnað til starfa á vegum hans, í forystu hans eða sem fulltrúar hans í stjórnkerfinu, skynji það svo að óeigingjarnt starf fyrir flokkinn skili sér í stuðningi til trúnaðarstarfa á vegum hans. Ef engin tengsl eru á milli þess sem menn leggja á sig í flokksstarfi og möguleikum þeirra til að ná árangri í stjórnmálum, er afar ólíklegt að hægt sé að byggja upp sterkt og heilbrigt flokksstarf. Opin prófkjör draga úr vægi flokkstarfsins.“

Nýafstaðið flokksval sýndi hversu veikt flokkstarf Samfylkingarinnar er enn. Enginn var slagurinn um tvö efstu sætin, flestir sóttust eftir þriðja til fjórða sæti. Að loknu flokksvali tók uppstillingarnefnd við og virtist ráðin í að hafa tillögur umbótaskýrslunnar að engu. Farið var eftir úrslitum flokksvalsins fyrir efstu átta sætin, en athygli vekur að aðeins tveir af þeim sem urðu neðar tóku sæti á listanum. Ég er einn þeirra sem ekki tók boði uppstillingarnefndar, eini iðnaðarmaðurinn sem tók þátt í flokksvalinu. Mér var tjáð að uppstillingarnefnd hefði reynt að gera listann „sölulegri“. Þar sem ég er ekki söluvara fannst mér ástæðulaust að una boði nefndarinnar.

Ekki stefnir í stóra sigra

Fleiri dæmi eru því miður um veikt flokksstarf Samfylkingarinnar. Í síðasta mánuði var aðalfundur Samfylkingarfélags Reykjavíkur. Fundurinn var frekar fámennur. Meðal þeirra sem vantaði á fundinn var oddvitinn úr flokksvalinu. Hann valdi frekar að funda með hluta þeirra sem yrðu (væntanlega) með honum á lista í næstu borgarstjórnarkosningum, svona til að þétta hópinn og huga að undirbúningi fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Þetta kom svo sem ekkert á óvart fyrir félagsmann sem hefur starfað innan Samfylkingarinnar frá stofnun hennar. Í Umbótaskýrslunni er einnig bent á eftirfarandi: „Sú gagnrýni er áberandi meðal almennra flokksmanna að forystan sé ekki í tengslum við grasrótina. Þannig hafi starf aðildarfélaganna lítil áhrif á stefnumörkun og forystan fylgi samþykktum stofnana flokksins ekki eftir. Þetta veldur því að ábyrgð aðildarfélaga á flokksstarfinu er takmörkuð og starf þeirra hefur ekki þau áhrif aðflokkurinn verði öflug liðsheild.“ Svo virðist vera að forystan skammist sín fyrir flokkinn og félagsmenn og noti orðið „jafnaðarmenn“ aðeins á hátíðarstundu.

Samfylkingin fékk þungt högg í síðustu alþingiskosningum. Ekki stefnir heldur í stóra sigra í komandi kosningum. Það er ekki vænlegt til árangurs að breyta flokknum úr breiðfylkingu jafnaðarmanna í bandalag prófkjörssigurvegara, sem einir móta stefnu flokksins og fylgja henni eftir. Ef Samfylkingin á að eiga sér einhverja framtíð verða flokksmenn og forystan að vinna í einlægni eftir tillögum Umbótaskýrslunnar.




Skoðun

Sjá meira


×