Skoðun

Bleiki fíllinn í stofunni

G. Svala Arnardóttir skrifar
Það er ekki óalgengt að menn fjargviðrist hér yfir orðræðu þingmanna manna á meðal og í fjölmiðlum. Nýlegt dæmi er úr umræðunni á Alþingi um tillögu ríkisstjórnarinnar um slit viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Vissulega eru góð samskipti án ásakana og gífuryrða alltaf keppikefli, ekki síst á hinu háa Alþingi, en umræðan um orðaval á ekki að koma í staðinn fyrir málefnalega umræðu um tilefni ummælanna. Í umræðunni hefur komið fram að fólki finnist t.d. afar hneykslanlegt að bölva og að ekki sé nú talað um að nefnt sé að einhver sé dónalegur.

Landsmenn hafa undanfarið mótmælt þúsundum saman andlýðræðislegum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar vegna tillögunnar um slit á viðræðunum við Evrópusambandið. Þessi andlýðræðislegu vinnubrögð ættu auðvitað að vera meira áhyggjuefni fyrir fólk og fjölmiðla heldur en þegar þingmönnum ofbýður yfirgangurinn. Það má líkja þessu við það að ásaka fjölskyldu alkóhólistans um ljótt orðbragð þegar hann er búinn að rústa stofunni á fylleríi.

Samkvæmt þessu ætti þá að senda málfarsráðunaut inn á stofugólfið hjá viðkomandi og fara yfir orðaval til að halda öllu huggulegu á yfirborðinu. Passa verður upp á að nefna alls ekki ástæðuna fyrir reiði fjölskyldunnar og það má ekki undir nokkrum kringumstæðum nefna það að viðkomandi alkóhólisti fari í meðferð.

Lýðræðisbrestur

Bleiki fíllinn í stofunni, þ.e. alkinn, getur þá haldið áfram við iðju sína og málfarsráðunauturinn hefur í nógu að snúast við að snyrta orðfærið. Starf málfarsráðunautsins er auðvitað mjög mikilvægt en það kemur ekki í veg fyrir reiðina og óréttlætið sem kraumar í fjölskyldunni. Alkóhólistinn þarf að kannast við vanda sinn og gera ráðstafanir í samræmi við hann ef samskipti fjölskyldunnar eiga að batna. Annars dafnar bleiki fíllinn í stofunni svo vel að hann fyllir á endanum alveg út í hana og aðrir meðlimir fjölskyldunnar hrökklast út með herfilegum afleiðingum.

Fjölmiðlar og umræðan í samfélaginu eiga ekki að sameinast í því að horfa fram hjá bleika fílnum í stofunni, meðvitað eða ómeðvitað. Það þarf að viðurkenna tilvist hans til að þoka málum áfram. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af lýðræðinu hér á landi þegar vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru skoðuð í sambandi við tillöguna um viðræðuslitin. Það þurfa að fara fram góðar og málefnalegar umræður um þann lýðræðisbrest sem við höfum horft upp á í beinni útsendingu sjónvarpsins undanfarið.

Er það ekki sérkennilega teprulegt að við, afkomendur bænda og sjómanna, skulum svo oft missa sjónar á aðalatriðunum þegar tekið er hressilega til orða? Eða er hér kannski kominn angi af gömlu íslensku þrætugirninni sem lýst er svo meistaralega í Njálu. Þrætugirni sem Jón Grunnvíkingur lýsti með einni setningu: „bændur flugust á.“




Skoðun

Sjá meira


×