Skoðun

Eigum við að mótmæla harðlega?

Elvar Örn Arason og Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Það er ótrúlegt að fylgjast með atburðum í Úkraínu. Þar hafa Rússar ákveðið að beita hervaldi til að freista þess að knésetja ný stjórnvöld í Kænugarði. Byltingin í Úkraínu var gerð í kjölfar mikilla mótmæla frá almenningi.

Almenningur var ósáttur við stefnu þáverandi forseta að hætta við að undirrita samstarfssamning við ESB og þróa nánara samstarf við Rússland, sem lofaði úkraínskum stjórnvöldum ríflegum fjárstuðningi ef þau hættu við samstarfið við ESB. Þetta átti almenningur í vesturhluta Úkraínu erfitt með að sætta sig við og í kjölfarið brutust út hörð mótmæli sem leiddu til þess að Janúkovítsj forseti hrökklaðist frá völdum.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, vill fá að stjórna því hvernig stjórnarfarið er í ríkjunum í kringum Rússland. Hann kærir sig kollóttan um að virða mannréttindi og koma á vestrænu lýðræði á áhrifasvæði þess. Almenningur í Úkraínu vill ekki nánari samskipti við Rússland, heldur treysta lýðræðisþróunina í landinu sem hófst árið 1991 með falli Sovétríkjanna og styrkja tengslin við ESB.

Átökin gætu haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og hrint af stað ófriðaröldu á svæðinu. Þessi þróun hefur leitt til neyðarfunda hjá ESB og NATO, þar sem nágrannaríki Rússlands hafa sett af stað nánari útfærslu á stofnsamningi NATÓ (Litháen skoðar nánar 4. gr. NATO-sáttmálans). Ástandið er afar eldfimt og allir aðilar þurfa að gæta þess að stigmagna ekki deiluna og leita eftir friðsamlegum lausnum.

Athyglisvert er að frá íslenskum stjórnvöldum koma varfærin viðbrögð. Þvert á móti hafa íslensk stjórnvöld undanfarin misseri fjandskapast við samstarfsþjóðir okkar í ESB (tillaga um slit á ESB-viðræðum), mært rússnesk stjórnvöld (viðtal forsetans við rússneskt dagblað), sýnt þeim of mikla virðingu (ráðherra og forseti fara á Vetrarólympíuleika).

Það skiptir máli að Vesturlönd standi saman og fordæmi rússnesk stjórnvöld harðlega fyrir að beita vopnavaldi gegn sjálfstæðu ríki. Ísland á að mótmæla með virkari hætti en hefur verið gert, t.d. með því að fylgja fordæmi stjórnvalda í Bretlandi og hætta við að senda ráðherra á Vetrarólympíuleika fatlaðra sem haldnir verða í Rússlandi. Að okkar mati eiga íslensk stjórnvöld ekki að efla samskipti sín við Rússland, heldur þvert á móti kæla þau samskipti í stað þess að eyða allri sinni orku í að draga úr samskiptum við lýðræðisþjóðir í Evrópu.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×