Skoðun

Kraftur léttir róðurinn

Halldóra Víðisdóttir skrifar
Fjárhagur og kostnaður ungra krabbameinssjúklinga til heilbrigðiskerfisins er viðfangsefni sem við hjá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk og aðstandendur, þreytumst ekki að ræða enda varðar viðfangsefnið hagsmuni okkar félagsmanna og getur haft mikil áhrif á líf þeirra.

Ungt fólk þekkir margt af eigin raun hvaða áhrif langvinn veikindi vegna krabbameins hafa á fjárhag fjölskyldunnar, bæði vegna aukinnar kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu og tekjumissis fjölskyldunnar um lengri tíma. Það að greinast með krabbamein er mikið áfall fyrir fólk, ekki síst ungt fólk í blóma lífsins og eru andlegt álag og líkamleg vanlíðan óhjákvæmilegir fylgifiskar veikindanna.

Fjárhagsáhyggjur eru svo ekki til að minnka álagið og þessi streituvaldur ætti að vera undanskilinn úr lífi þeirra sem þurfa að takast á við jafn erfið veikindi og krabbamein. Þeir sem ekki hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð þurfa sjaldnast að hafa áhyggjur af þessum efnum. Krabbamein er oft sjúkdómur eldra fólks og því gerir enginn ráð fyrir að greinast með krabbamein á unga aldri.

Kraftur hefur ekki farið varhluta af þeirri miklu neyð sem ungar fjölskyldur standa frammi fyrir þegar annar framfærsluaðilinn á heimilinu, eða jafnvel sá eini, veikist af krabbameini. Oft og tíðum er leitað til félagsins eftir fjárhagsaðstoð – einfaldlega til þess að endar nái saman. Þá er fjölskyldan fyrir löngu búin að draga saman seglin, varasjóðurinn genginn til þurrðar, fjölskyldubíllinn seldur og tómstundir og íþróttaiðkun barnanna heyra sögunni til.

Styrktarsjóður

Það kostar að leita til heilbrigðisþjónustunnar. Í hvert sinn sem einstaklingur þarf á göngudeildar- eða læknisþjónustu að halda þarf hann að taka upp veskið. Fjárhæðirnar eru stundum litlar en safnast þegar saman kemur. Það er því ekki að ástæðulausu að við hjá Krafti teljum nauðsynlegt að stofna sérstakan styrktarsjóð sem félagsmenn geta sótt í til þess að létta þær fjárhagslegu byrðar sem krabbameinið leggur á herðar fjölskyldufólki. Verum minnug þess að ungar fjölskyldur eru að öllu jöfnu skuldsettar fyrir vegna náms- og húsnæðislána og því ekkert svigrúm til þess að takast á við óheyrilega háan kostnað við heilbrigðisþjónustu vegna krabbameins.

En til þess að þessi draumur okkar hjá Krafti geti ræst verðum við að treysta á velvild þeirra sem meira mega sín í samfélaginu – því ekki höfum við hingað til sótt okkar fjármuni til opinberra aðila. Í ár á Kraftur 15 ára afmæli og er það einlægur ásetningur okkar að stofna styrktarsjóð á afmælisárinu; sjóð til þess að hjálpa okkar fólki að standa ölduna þegar sortinn er sem mestur í lífinu. Við munum sannarlega leggja hart að okkur við að ná þessu markmiði á afmælisári Krafts og heitum á þá sem aflögu eru færir að minnast okkar í þeirri viðleitni og hjálpa okkur að hjálpa öðrum.




Skoðun

Sjá meira


×