Skoðun

Lífshlaupið 2014, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ

Hafsteinn Pálsson skrifar
Það er lífsstíll að hreyfa sig og láta sér líða vel. Allir þurfa að hreyfa sig sér til heilsubótar og til að auka sína vellíðan.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur almenning til reglubundinnar hreyfingar með því að bjóða upp á Lífshlaupið. Lífshlaupið hófst í 7. sinn miðvikudaginn 5. febrúar. Verkefnið felst í því að allir landsmenn eru hvattir til þess að hreyfa sig sér til ánægju og heilsubótar og skrá það inn á lifshlaupid.is en hægt er að taka þátt í vinnustaða-, grunnskóla- og einstaklingskeppni.

Mikilvægi hreyfingar

Rannsóknir staðfesta mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu manna og því er brýn þörf á að hvetja fólk til hreyfingar. Allir þurfa að hreyfa sig, börn þurfa að ná að hreyfa sig í að lágmarki 60 mínútur á dag og fullorðnir að minnsta kosti 30 mínútur daglega að meðaltali. Með Lífshlaupinu hvetur ÍSÍ vinnuveitendur til þess að taka þátt í að hvetja starfsmenn sína til hreyfingar. Einnig eru grunnskólar landsins hvattir til þess að nota tækifærið til þess að auka samkennd nemenda sinna með almennri þátttöku þeirra í virkri hreyfingu.

Sveitarstjórnir og ríkisvaldið eru minnt á að hafa nauðsyn hreyfingar í huga þegar kemur að ákvörðunum um m.a. skólastarf, skipulag og framkvæmdir. Nefna má að bætt heilsa lækkar kostnað við heilbrigðiskerfið, fækkar veikindadögum og eykur því þjóðarhag.

Gleðin í fyrirrúmi

Eftirvæntingin og gleðin vegna leikja, útiveru og samveru með öðrum er alltaf mikil. Það er von okkar sem stöndum að Lífshlaupinu að sem flestir nái að öðlast aftur eftirvæntinguna og gleðina af að fara út til þess að hreyfa sig. Allir hafa þörf fyrir hreyfingu.

Landsmenn eru hvattir til að taka þátt í Lífshlaupinu og að hreyfa sig. Njótum lífsins!




Skoðun

Sjá meira


×