Skoðun

Úthrópuð sekt fasteignasala

Einar G. Harðarson skrifar
Dálæti fréttamiðla á fasteignasölum er fágætt og sífellt er verið að hengja bakara fyrir smið. Fyrsta fréttin sem ég man eftir, og birtist einnig umfjöllun um hana í bréfi frá Félagi fasteignasala til fjölmiðla, varðaði fasteignasala sem hafði verið handtekinn, og borinn út í járnum, á spilavíti sem hann hafði rekið. Næst birtist frétt um fasteignasala sem grunaður var um stórfelld fjármunabrot og peningaþvætti. Síðan var komið að fasteignasala sem hafði verið höfuðpaurinn í alvarlegum fjársvikum gagnvart Íbúðalánasjóði og tengdist glæpasamtökunum Hells Angels.

Umfjöllun var um fasteignasala sem hafði gerst sekur um alvarleg kynferðisbrot og líkamsárás. Svo birtist enn ein fréttin um fasteignasala sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir blekkingar. Flugdólgur var kallaður fasteignasali o.s.frv. Í öllum þessum tilvikum þótti sérstaklega fréttnæmt að viðkomandi væri fasteignasali. Enginn þessara aðila er fasteignasali né hefur nokkru sinni verið!

Ein frétt var þó um raunverulegan fasteignasala en hún var um stærstu einstaklingsgjaldþrot frá bankahruni. Þar var Björgólfur Guðmundsson efstur á blaði með 96 milljarða skuld og svo kom listinn með sex aðilum þar sem fasteignasali var neðstur með 500 milljónir og sagt að fjárfestar og fasteignasalar skipuðu topp lista yfir gjaldþrot einstaklinga. Það einkennilega við þessa frétt er að listinn var ekki yfir fimm eða tíu efstu heldur sex og sá sjötti var fasteignasali. Hann var með langlægstu upphæðina en í fyrirsögninni stóð samt: „Fjárfestar og fasteignasalar.“

Svo langt er þetta gengið að kona ein setti stöðu um eina fréttina á FB og sagði: „Vá þetta var þá fasteignasali, ég hélt fyrst að þetta hafi verið manneskja, súkk.“

Fasteignasali er lögverndað starfsheiti eins og læknir, lögfræðingur eða hvert annað lögverndað starfsheiti. Aðrir en löggiltir fasteignasalar mega því ekki vera kallaðir fasteignasalar, hvorki af sölufulltrúum, fréttamiðlum né almenningi. Þetta vita sölufulltrúar og fjölmiðlar mæta vel.

Hvernig fyndist ykkur, lesendur góðir, ef fyrirsagnir í blöðum væru á eftirfarandi máta: „Læknir grunaður um stórfelld fjármunabrot og peningaþvætti.“ Hvað ef læknir hefði verið höfuðpaurinn í alvarlegum fjársvikum gagnvart Íbúðalánasjóði og tengdist glæpasamtökunum Hells Angels? En ef tekið væri fram að læknir hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir blekkingar? Flugdólgur var læknir o.s.frv. Jafnvel þótt enginn fótur væri fyrir því að um lækni hafi verið að ræða. Í besta falli hafi umræddur verið í hjálparsveit, verið ómenntaður sjúkrahússtarfsmaður eða ekið sjúkrabíl einhvern tímann á lífsleiðinni.

Hér er eingöngu orðið læknir sett inn í staðinn fyrir orðið fasteignasali.

Myndu læknar láta slíkt óátalið?




Skoðun

Sjá meira


×