Skoðun

Hestaskál á nokkrum erlendum tungumálum

Halldór Þorsteinsson skrifar
Það má merkilegt heita að bæði á frönsku og ítölsku ríkir nokkuð svipaður hugsunarháttur um þetta og hjá okkur Íslendingum, enda tengist hann beint eða óbeint hestamennsku eða nánar til tekið reiðtygjum. Frakkar segja „un coup d‘étrier“, þ.e. „ístaðsstaup“. „Étrier“ merkir ístað. Á sama hátt segja Ítalir „un bicchiere della stalla“. Ístað á ítölsku er nefnilega „stalla“. Það orð hefur reyndar fleiri merkingar því það er líka notað um hesthús eða gripahús og þar af leiðandi áreiðanlega af sama stofni og enska orðið „stable“.

Mér vitanlega er ekki til neitt orð um þetta hvorki á þýsku, Norðurlandamálum né spænsku. Satt best að segja finnst mér þær þjóðir sem eiga ekkert sambærilegt orðatiltæki við okkar hestaskál vera nokkuð aftarlega á merinni!

Af tómri rælni hringdi ég í Baltasar Samper, listmálara og hestamann, og spurði hann hvort hann kannaðist við svipað orðatiltæki á spænsku og kvað hann það sér vitandi ekki vera til. Var þetta gert í þeim tilgangi að fullkanna málið. Þetta kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir eða réttara sagt eyru.

Nú er komin röðin að Engilsöxum og öðrum enskumælandi þjóðum en þær segja eins og flestir vita: „one for the road“. Í beinu framhaldi af þessu langar mig til, lesendur góðir, að segja ykkur nokkuð um tvo enska og gamla drykkjufélaga sem sátu að sínu daglega sumbli, þegar annar þeirra kvað upp úr eins manns hljóði: „Ég hef drukkið þinnar full svo lengi að það hefur alveg farið með heilsuna mína“ og hljóðar svona á þeirra eigin máli: „I have drunk so much to your health that I have ruined mine“ og hittir langtum betur í mark en þær klaufalegu skýringar mínar hér að ofan.

Mér finnst viðeigandi að slá botninn í þennan stutta pistil minn með eftirfarandi orðum: „Hestaskál!“ Kæri Benni okkar fyrir „Hross í oss“.




Skoðun

Sjá meira


×