Skoðun

Áfram þú

Birgir Örn Guðjónsson skrifar
Ég vil ekki vera flokkaður með þeim sem nauðga. Ég vil ekki vera flokkaður með þeim sem beita heimilisofbeldi. Ég vil ekki vera flokkaður með þeim sem hafa ekki trú á konum í forystusæti. Það eru nauðgarar sem nauðga, aumingjar sem beita heimilisofbeldi og fáfróðir sem hafa ekki trú á konum í forystusæti. Að setja mig í flokk með þessum aðilum einungis vegna míns kyns er óréttlátt. Ég er einstaklingur í þessu samfélagi og vil vera metinn sem slíkur en ekki eftir fyrirfram mótuðum hugmyndum um einhvern hóp. Slíkir flokkadrættir kallast fordómar.

Sjálfsmynd okkar á ekki vera byggð á fyrirfram gefnum staðalmyndum samfélagsins. Við þurfum að hafa trú á okkur sjálfum sem einstaklingar. Við þurfum líka að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Óháð stöðu, stétt eða kyni.

Samfélagið þarf á fleiri konum að halda í forystusætin. Það er bara þannig. Í samfélagi með álíka jöfnu hlutfalli af konum og körlum segir það sig sjálft að það er einhver mikil skekkja í þessum málum. Það eru að sjálfsögðu til allavega jafn margar hæfar konur og karlar til forystu en samt eru karlarnir í þessum stöðum miklu miklu fleiri. Það er mjög óeðlilegt.

Þess vegna verða allar þessar hæfu konur að stíga fram. Samfélagið þarf á því að halda. Þær þurfa samt ekki að stíga fram sem partur af einhverjum hópi. Þær þurfa bara að stíga fram sem hæfir einstaklingar.

Við erum alls ekki að tala um neina keppni milli kynjanna. Við erum að tala um bætt samfélag fyrir okkur öll. Það græða allir á því að hæfasti einstaklingurinn veljist til forystu.




Skoðun

Sjá meira


×