Skoðun

Átak gegn ofbeldi?

Rósa María Hjörvar skrifar
Þó að það geti vissulega verið gaman að baða sig í sviðsljósinu, efast ég um að fatlaðar konur hafi haft gagn af þeirri umræðu um kynferðislegt ofbeldi sem hefur átt sér stað undanfarnar vikur. Og ég efast um að þau úrræði sem kynnt hafa verið, breyti þeirri staðreynd að fatlaðar konur eru einna líklegastar til þess að verða fórnarlömb ofbeldis.

Þótt það sé virðingarvert og sjálfsagt að Stígamót ætli sér að gera aðstöðu sína aðgengilega fötluðum konum, er það þegar tekið er tillit til umfangs og gerð vandans, á við að reyna auka flugöryggi með svampdýnum. Og þegar talað er um að gera fatlaðar konur að börnum í lagalegum skilningi og veita þeim vernd þannig, þá er það beinlínis meiðandi og eykur á ímynd fatlaðra kvenna sem ósjálfbjarga fórnarlömb.



Ef ætlun manna er að bæta skilning á þeim vanda sem fötluð fórnarlömb ofbeldis eru í hlýtur það að vera grundvallaratriði að þetta sé gert í samráði við samtök fatlaðra og fatlaðar konur sjálfar.

Viðhorfið

Kynbundið ofbeldi gegn fötluðum konum er þó ekki óleysanlegt vandamál. Rannsóknir á Norðurlöndum sýna að það hefur í raun mjög lítið með eiginlega fötlun að gera en meira með viðhorf gagnvart fötluðum og þeim aðstæðum sem samfélagið kýs að setja fatlaða í. Það er nefnilega alfarið í höndum samfélagsins að gefa fötluðum tækifæri til þess að móta líf sitt með reisn og sjálfstæði og sporna þannig gegn ofbeldi.

Að brjóta niður einangrun og jaðarsetningu fatlaðra er átak gegn ofbeldi. Að tryggja fötluðum ferðafrelsi og aðgengi að vinnu og menntun er átak gegn ofbeldi. Að tryggja fötluðum fjárhagslegt sjálfstæði og jafnan aðgang að stofnunum samfélagsins er átak gegn ofbeldi.

Við þurfum ekki að leita lengra, kalla til fleiri sérfræðinga eða setja niður nefndir, við sem samfélag vitum nákvæmlega hvers er krafist, það þarf bara að framkvæma. Tryggja mannsæmandi ferðaþjónustu um land allt, svo fatlaðir geti sinnt störfum sínum og áhugamálum. Tryggja framkvæmd nýrrar byggingarreglugerðar svo fötluðum sé tryggt aðgengi á öllum sviðum þjóðfélagsins. Byggja félagslegar íbúðir svo fatlaðir hafi raunverulegt val um búsetu.

Og svo hitt, að skilja það að einstaklingar, hvort sem þeir eru fatlaðir eða ófatlaðir, geta aðeins blómstrað ef þeim er gefið tækifæri til að vaxa. Við þurfum að hlúa að öllum borgurum þessa lands og hætta að beita hugtökum og orðræðu sem er til þess fallin að meiða og einangra.




Skoðun

Sjá meira


×