Skoðun

Hungurleikarnir

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Á næstu vikum mun stjórn LÍN klára að semja og samþykkja úthlutunarreglur námslána fyrir næsta skólaár. Úthlutunarreglurnar eru mikilvægur liður í að tryggja námsmönnum viðunandi framfærslu út námsárið. Slík lán eru vitaskuld af hinu góða og einrómur er um það að fjárfesting í menntun og velgengni námsmanna er þjóðinni til heilla.

Í dag er framfærsla námsmanna ekki í samræmi við neysluviðmið velferðarráðuneytisins og nokkuð lægri en atvinnuleysisbætur sem skapar fáa hvata til að sækja sér menntun. Því er staða námsmanna þröng og mun eflaust þrengjast á næstunni miðað við ummæli menntamálaráðherra.

Í tilefni af samningum um nýjar úthlutunarreglur höfum við í Ungum jafnaðarmönnum brugðið á það ráð að boða til Hungurleika LÍN. Markmiðið er að fá þátttakendur leikanna til að greina frá neyslu sinni í heila viku og kanna hvort gerlegt sé að lifa á framfærslunni einni. Fylgjast má með gangi mála og keppendum á facebook svæði Ungra jafnaðarmanna.

Gjörningurinn er auðvitað líka til þess fallinn að vekja athygli á bágri stöðu námsmanna og krefjast endurbóta á lánafyrirkomulaginu. Tryggja þarf að framfærslan haldi í við verðlag og auk þess þarf að tryggja að námsmenn geti fengið sér viðunandi sumarstarf án þess að of brött tekjutenging námslána éti upp öll lánin. Þá er brýnt að halda áfram á þeirri vegferð að gera hluta að námslánum að námsstyrkjum sem greiða mætti þeim námsmönnum sem standa sig vel í námi. Slíkt tíðkast í nágrannaríkjum okkar og hefur verið lykilatriði í að efla menntunarstig annarra norrænna ríkja og hlúa að þekkingarsamfélaginu.

Í fyrra var haft eftir menntamálaráðherra að leggja ætti á námsmenn þyngri námsframvindukröfur og að námsmenn ættu að stunda nám sitt af „fullri alvöru”. Að tryggja viðvarandi Hungurleika í háskólasamfélaginu rænir ungt og tekjulágt fólk tækifærinu til að stunda nám sitt af fullri alvöru. Þess í stað ætti menntamálaráðherra að leita leiða til hvatninga. En saddir og sælir námsmenn eru einmitt í mun betri stöðu til að stunda nám sitt af fullri alvöru.




Skoðun

Sjá meira


×