Skoðun

Heimsókn forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, í Yasukuni-hof

Tatsukuni Uchida skrifar
Með vísun til aðsendrar greinar sem birtist í Fréttablaðinu þann 16. janúar sl., og rituð er af sendiherra Alþýðulýðveldisins Kína á Íslandi, Ma Jisheng, langar mig að fara stuttlega yfir nokkrar staðreyndir, en í umræddri grein er hafður uppi áróður sem gæti afvegaleitt lesendur. (Áróðurinn er hluti af hnattrænni herferð Kína til að koma óorði á Japan án tillits til friðelskandi eiginleika japönsku þjóðarinnar.)

Þann 26. desember síðastliðinn heimsótti forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, Yasukuni-hofið í Tókýó til að votta virðingu og biðja fyrir sálum allra þeirra sem börðust og féllu fyrir Japan, og til að endurnýja heitið um að Japan skuli aldrei aftur heyja stríð. Í yfirlýsingu Abe sama dag gaf hann skýrt til kynna að tilgangurinn með heimsókninni var alls ekki að votta stríðsglæpamönnum virðingu né bera lof á hernaðarhyggju.

Ríkisstjórnir Japans hafa í gegnum tíðina horfst heiðarlega í augu við söguna og ítrekað tjáð djúpa iðrun og beðist einlæglega afsökunar á að hafa valdið fólki frá mörgum þjóðum, einkum í Asíu, gríðarlegu tjóni og þjáningum. Þessari afstöðu er einnig haldið fastlega uppi af ríkisstjórn Abe.

Ekki hervaldsstefnuþjóð

Frá stríðslokum hefur Japan verið stöðugt skuldbundið til að byggja frjálst, lýðræðislegt og löghlýðið samfélag og lagt sitt af mörkum til að stuðla að friði og velmegun í heiminum. Þessi grundvallargildi og skilningur hafa skotið djúpum rótum meðal japönsku þjóðarinnar sem hluti af sjálfsmynd hennar. Þessi afstaða helst óbreytt.

Kína nefnir stefnu Japans í öryggismálum en hún er til þess gerð að bregðast við æ sveiflukenndara ástandi öryggismála umhverfis Japan. Ríkisstjórn Abe hefur einnig skilning á ábyrgðarhlutverki sínu sem hnattrænt afl og er að innleiða stefnu sem hefur það að markmiði að Japan hafi frumkvæði að því að leggja sitt af mörkum til svæðisbundins og alþjóðlegs friðar.

Niðurstaðan er sú að Japan er ekki hervaldsstefnuþjóð. Í hnotskurn eru skoðanir sem settar eru fram af kínverska sendiherranum einfaldlega í mótsögn við sögu Japans eftir stríð og þjóðareinkenni. En á sama tíma vonumst við innilega til að geta bætt samskipti okkar við Kínverja með samræðu um okkar sameiginlegu og betri framtíð Asíu og víðar. Dyrnar standa ætíð opnar af hálfu Japans, og við vonum einlæglega að Kína muni koma til samræðna.




Skoðun

Sjá meira


×