Skoðun

Umbætur á húsnæðismarkaði

Pétur Ólafsson skrifar
Því hefur verið haldið fram af m.a. af bæjarstjóra Kópavogs í stórum fréttamiðlum að tillaga Samfylkingarinnar, VG og Næstabestaflokksins sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn var, um að kaupa félagslegt húsnæði annars vegar og reisa fjölbýlishús til leigu á almennum markaði muni kosta bæjarfélagið þrjá milljarða. Ekkert er eins fjarri sanni enda munu bæjarfulltrúar aldrei setja fjárhag Kópavogs í uppnám.

Sanngjarnt leigufélag

Tillagan var lögð fram vegna neyðarástands á húsnæðismarkaði. Það mun taka tíma að kaupa allt það félagslega húsnæði sem um getur í tillögunni. Fyrir þeim fæst lán á afar hagstæðum vöxtum. Hvað varðar fjölbýlishúsin til útleigu á almennum markaði munum við kalla til lífeyrissjóði, aðila vinnumarkaðarins og fasteignafélög sem hafa hug á að stofna til leigufélags á samfélagslegum grunni. Það gæti jafnvel farið svo að það eina sem Kópavogsbær þyrfti að gera væri að reiða fram lóð og lendur undir húsnæðið.

Mannréttindi

Það er vont að hlusta á bæjarstjóra nefna þriggja milljarða króna kosningavíxil sem ríkisfjölmiðlar og aðrir birta án þess að bera undir tillöguflytjendur. Við í Samfylkingunni höfum alltaf talað fyrir ábyrgum rekstri bæjarsjóðs en þegar neyðarástand skapast verða kjörnir fulltrúar að bregðast við, vegna þess að þak yfir höfuðið eru mannréttindi – án tillits til þess hvað talsmenn hins frjálsa markaðar kunna að segja um það.




Skoðun

Sjá meira


×