Skoðun

Opið bréf til innanríkisráðherra, ítrekun

Björn Guðmundsson skrifar
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Í lok október birtist þér opið bréf á síðum þessa blaðs þar sem undirritaður spurði þig nokkurra spurninga. Svör hafa ekki borist.

Skömmu síðar talaðir þú um kristilegt siðgæði og kærleika á Kirkjuþingi. Á leið þinni upp metorðastigann varð þér tíðrætt um mikilvægi samræðu. Um nýliðin áramót strengdir þú þess heit að leggja þig fram og minna þig reglulega á þau forréttindi að fá að vinna fyrir fólkið í landinu. Það að þú skulir ekki svara bréfi mínu er í mótsögn við þetta.

Spurningar mínar snerust um náttúruverndarmál og sumar þeirra voru þess eðlis að ég fæ ekki betur séð en að þér beri lagaleg skylda til að svara þeim. Sem ráðherra dómsmála á Íslandi gætir þú verið komin á hálan ís gerir þú það ekki. Ég bendi þér á að kynna þér upplýsingalög í þágu almennings. Lög um upplýsingarétt um umhverfismál byggja á tilskipun Evrópusambandsins og eru hluti af EES-samningnum hvort sem þér líkar betur eða verr. Þeim er ætlað að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings þegar verið er að móta ákvarðanir um umhverfismál.

Hvet þig til að svara

Ég hvet þig til að svara spurningum mínum. Þær snerust m.a. um olíumengun á vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar og fyrirhugaðar framkvæmdir við Þríhnúkagíg sem OR og fleiri ábyrgir aðilar hafa lýst sig andvíga vegna mengunarhættu og óafturkræfra náttúruspjalla. Þarna eru í húfi hagsmunir stórs hluta almennings á Íslandi gagnvart gróðahyggju nokkurra manna á hinn bóginn. Stendur þú með almenningi í samræmi við áramótaheit þitt eða gengur þú erinda auðvalds sem engu eirir þegar náttúra landsins er annars vegar? Skilur þú ekki mikilvægi þess að halda drykkjarvatni stórs hluta þjóðarinnar óspilltu?

Sýndu fram á að tal þitt um kristilegt siðgæði, kærleika og samræðu sé ekki orðin tóm. Við skulum ekki flækja málin með tali um góða siði. Og ráðherra dómsmála má ekki dreifa fræjum efasemda um eigin löghlýðni. Gangi þér vel, Hanna Birna.




Skoðun

Sjá meira


×