Skoðun

Harmleikur í háloftunum

Sveinn Óskar Sigurðsson skrifar
Þann 5. ágúst fórst æskufélagi minn og besti vinur í flugslysi á Akureyri ásamt samstarfsfélaga sínum. Þeir voru mörgum harmdauði. Sorgin nístir mann í gegnum merg og bein.

Margir leita leiða til að fá svör við því hvað fór úrskeiðis og margir telja sig vita svörin betur en aðrir, vilja fylla í eyðurnar og meta það hver gerði rangt og hver rétt. Það er sjálfsagt og eðlilegt enda verður að leita leiða til að varpa ljósi á það sem gerðist. Hins vegar verður að gæta að hlutleysi í slíkum rannsóknum, fagmennsku og fela þeim rannsóknina í hendur sem betur þekkja til flugs en við hin sem höfum aðeins reynslu sem farþegar.

Skoðun og vangaveltur um slíkt er allt annað en fagleg úttekt og rannsóknir færustu manna. Þrátt fyrir símtöl við aðstandanda frá Stöð 2 eða öðrum skömmu fyrir birtingu myndbands til að mýkja ásýnd útspilsins í fjölmiðlum nýlega hefur slíkt ekki reynst að mínu mati trúverðug nálgun eða vottur um að skynsemi liggi að baki birtingunni. Vinur minn hefur beinlínis verið ásakaður um glæfraflug, maður sem er ekki meðal okkar til að veita andsvar og færa rök fyrir sínu máli. Heggur sá er hlífa skyldi og ber fyrir sig almannahagsmuni í útspili sínu gegn rannsókn sem ekki er lokið.

Til vansa

Tel ég útspil Stöðvar 2 og Fréttablaðsins nýlega ritstjórum þessara miðla til vansa og lýsir það takmörkuðum skilningi á almannahagsmunum. Þessir miðlar vilja að fúskarar innan fjölmiðla fremur en fagmenn taki að sér e.k. yfirborðsrannsókn af þessari gerð. Léleg fjárhagsstaða fjölmiðils eða þörf fréttamanna til að tjá sig um hve mikilvægu hlutverki þeir gegna réttlætir ekki að varpa fram upplýsingum af þessum toga til fjármögnunar og sölu auglýsinga. Fagmenn hafa ekki lokið störfum hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Sökum þessa kem ég hér fram til andsvara enda ekki vanþörf á. Þvílíkt og annað eins var þetta framlag 365 miðla sem var beinlínis særandi og framkvæmt án þess að hægt væri að leita leiða fyrir skólayfirvöld til að bregðast við vegna velferðar þeirra barna sem eiga undir högg að sækja. Ekkert var hugað að börnunum eða almannahagsmunum enda um að ræða vanhugsaðar aðgerðir ritstjóra. Þessa ófaglegu og meiðandi umfjöllun var reynt að réttlæta í lélegum leiðara í Fréttablaðinu af syni ástsæls sóknarprests á Íslandi. Verið var að hanna atburðarás. Varðandi sálgæslu barna og aðstandenda hefur sr. Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur á Akureyri, bent á hættuna opinberlega. Gæta verður að þeim börnum sem eiga enn um sárt að binda. Var það kannski einskis virði fjölmiðli „fyrir sunnan“?

Ákveðið verklag

Fáum við nokkurn tíma fullvissu um það hvað í raun gerðist og hvaða rök vinur minn Páll Steindór Steindórsson gæti haft uppi væri hann á lífi eða Pétur Róbert Tryggvason? Telur fólk að þeir hefðu haft ríka þörf fyrir að láta birta nákvæmt myndband af slysinu þannig að börn þeirra gætu nálgast það með nútímatækni? Hvers vegna treystir fólk ekki þeim sérfræðingum sem standa að flugslysarannsóknum á Íslandi í dag og sérfræðingum varðandi sálgæslu fólks? Það er miður ef svo er.

Ekki ásaka ég Mýflug um vanrækslu þrátt fyrir fremur ósmekklegt inngrip af hálfu Stöðvar 2 í gamalt viðtal við forstöðumann þess félags. Starfið hjá Mýflugi er óneitanlega fjölbreyttara og mun alltaf vera fjölbreyttara en hefðbundið farþegaflug eðli máls samkvæmt. Öll umræða um gáleysi og „low pass“ er ekki trúverðug þegar ekkert var um slíka hættu fjallað af hálfu Stöðvar 2 er flogið var á Icelandair-þotu fullri af eldsneyti með alla handboltakappa þjóðarinnar yfir miðbæ Reykjavíkur og Reykjavíkurflugvöll eftir að þeir unnu silfrið í Peking hér um árið. Það var „low pass“.

Samfélag manna, a.m.k. hér á Vesturlöndum, hefur komið sér saman um ákveðið verklag þegar kemur að slysum, hvort sem um er að ræða slys í hálku norðan heiða eða í háloftunum. Þetta lýtur alþjóðastöðlum og reglum. Sama á við um dómstóla sem komu í stað dómstóla götunnar og oft fremur óvandaðrar fjölmiðlaumfjöllunar misviturra manna. Sjálfsagt er að gera ítarlegri rannsókn á þessu slysi en þá er rétt að leyfa Rannsóknarnefnd samgönguslysa að ljúka sínum störfum og skila af sér lokaskýrslu.

Ég veit og trúi að Páll Steindór Steindórsson flugstjóri yrði síðasti maðurinn til að hafna því að hans störf yrðu rannsökuð enda var hann fagmaður á sínu sviði, sjálfsgagnrýninn mjög og vandaður maður. Hann stæði einnig vörð um börn sín. Megi Guð blessa minningu hans og Péturs Róberts Tryggvasonar og styrkja aðstandendur þeirra sem og Axel Albert Jensen er lifði þetta hörmulega slys af og aðstandendur hans.




Skoðun

Sjá meira


×