Skoðun

Þjórsárver – vernd eða nýting?

Úrsúla Jünemann skrifar
Núverandi svonefndum umhverfisráðherra er greinilega ásamt öðrum í Framsóknarflokknum ekki mjög annt um umhverfisvernd. Hann er við sama heygarðshorn og flokksbróðir hans, Gunnar Bragi Sveinsson, sem skrifaði tölvupóst um það að það ætti að gæta vel að því að umhverfisverndarsinnar kæmust ekki að.

Vinnubrögð Sigurðar Inga eru vægast sagt furðuleg og ekki í anda lýðræðis. Rökstuðningur við aðgerðir hans er það sömuleiðis. Hann segir að með nýjum mörkum friðlands í Þjórsárverum sem hann setti án þess að spyrja kóng né prest sé einmitt verið að friða Þjórsárverin. Samkvæmt greinargerð umhverfisráðuneytis verða nýju mörkin friðlandsins dregin í kringum fyrirhugað lónsstæði, líkt og Landsvirkjun lagði til í sumar. Þannig að Norðlingaölduveitan er ekki úr sögunni. Þrátt fyrir að hún væri sett í verndunarflokk eru menn enn að gjóa augunum á það að þarna verði hægt að virkja. Mörk friðlandsins voru bara færð til, svo einfalt var það.

Svo segir Sigurður Ingi að engin mannvirki tengd virkjunum verði innan hins friðlýsta svæðis – auðvitað af því hann færði mörkin til! – og það sem gerist fyrir utan svæðið hafi ekkert með Þjórsárver að gera. Ósköp væri nú æskilegt að maðurinn myndi taka bara eins og einn grunnkúrs í vistkerfisfræði. Þá myndi hann átta sig á því að votlendissvæði eins og Þjórsárver eru afar viðkvæm fyrir öllum breytingum á jaðarsvæðum þess. Til dæmis mun það hafa veruleg áhrif ef vatnsbúskap verður breytt þó það sé fyrir utan mörk friðlandsins. En kannski vill ráðherrann ekki vita það, hann sem trampar um eins og fíll í postulínsbúð og kærir sig ekki um lýðræðislegar ákvarðanir.

Ráðherra umhverfismála var að tjá sig um fossana í efri Þjórsá, segist vera búinn að sjá þá og dást að fegurð þeirra. Jafnóðum leggur hann blessun sína yfir að þessar perlur munu spillast með virkjunaráformum hjá Þjórsárverunum. Hvernig getur hann haft slíkt á samviskunni, hann sem hefur það hlutverk að standa vörð um okkar einstöku náttúru?

Alþjóðlegir samningar

Ísland er aðili að alls konar alþjóðlegum samningum. Mig langar að spyrja hvort menn telji sig þá ekki bundna af þessu á einhvern hátt. Við eigum til dæmis aðild að Ramsar-samningnum. Ramsar-svæði eru kennd við sáttmála um verndun votlendis sem telst hafa alþjóðlegt mikilvægi, sérstaklega sem búsvæði fyrir fugla. Þjórsárver eru stærsta votlendisvin á miðhálendi Íslands og eitt þriggja svokallaðra Ramsar-svæða á Íslandi.

Við eigum einnig aðild að Árósasamningnum. Hann var samþykktur á fundi umhverfisráðherra í Evrópu þann 25. júní 1998. Ísland var á meðal þeirra 35 landa sem strax á fyrsta degi lögðu með undirritun sinni nafn sitt við samninginn.

Árósasamningurinn er umhverfissamningur. Hann tengir saman umhverfismál og mannréttindi – að sérhver kynslóð eigi rétt á að lifa í umhverfi sem sé fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hennar. Settar eru skyldur á ríkin sem standa að samningnum og eru þau réttindi sem ríkin eiga að tryggja almenningi þríþætt og mynda þrjár stoðir samningsins.

Fyrsta stoðin mælir fyrir um skyldur ríkja til að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar ríkin til að tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem snerta umhverfið. Þriðja stoðin snýr að skyldu ríkja til að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð í málum sem varða umhverfið. Ákvæði samningsins fela í sér lágmarksreglur. Þau eru almenns eðlis og gefa aðildarríkjunum talsvert svigrúm við innleiðingu þeirra. Hafa aðildarríki samningsins farið mislangt við að innleiða einstök ákvæði hans, sér í lagi það ákvæði er snýr að kæruaðild og hefur Ísland þar dregið lappir hingað til.

En hvers virði er það að undirrita alþjóðlega samninga? Mér þykir það svik að undirrita eitthvað og fara svo ekki eftir því og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að tilheyra þessari litlu þjóð sem gæti gert svo miklu betur. Við gætum auðveldlega verið leiðandi í umhverfismálum. En græðgin spillir og dregur úr skynsamlegri framtíðarsýn.

Fyrir hverja og hvað á að halda áfram að virkja grimmt á kostnað okkar einstöku náttúru? Við eigum meira en nóg af orku fyrir okkar þarfir og gætum notað hana betur en að selja hana fyrir slikk. Mýtuna um að hér sé til endalaus forði af vistvænni orku sem gæti bjargað heiminum verður að kveða niður sem fyrst.




Skoðun

Sjá meira


×