Lífið

Ættarsagan er innblásturinn

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Peysur Margrétar
Peysur Margrétar
Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum og hef prjónað alla tíð. Mig vantar yfirleitt fleiri klukkutíma í sólahringinn,“ segir Margrét Halldórsdóttir sálfræðingur, en hún prjónar peysur úr einbandi undir heitinu Móakot.

Þjóðlegt Margrét er einnig farin að prjóna herrapeysur.
Peysurnar bera nöfn eins og Þjóðbjörg, Kristín, Móbjörg og Móri og sækir Margrét innblásturinn til fjölskyldusögu sinnar.

„Innblásturinn kemur frá Móakoti á Vatnsleysuströnd en peysurnar kalla ég Landnámsdætur og -syni. Móðurfólkið mitt er ættað frá Móakoti en peysan Kristín er einmitt nefnd eftir langömmu minni Kristínu Jónsdóttur, sem eignaðist Móakot árið 1879, einungis tvítug að aldri,“ útskýrir Margrét.

Kristín heitir nýjasta peysa Margrétar.
„Upphafið að þessu öllu saman var að ég tók þátt í stórri prjónakeppni hjá Ístex fyrir fjórum árum og vann hana með peysuna Þjóðbjörgu. Þá vissi ég að ég yrði að gera eitthvað meira og í kjölfarið gerði ég peysuna Móbjörgu. Nú er ég einnig farin að prjóna herrapeysur og sú fyrsta heitir Móri, eftir draugnum sem bendlaður var við Móakot á sínum tíma,“ segir Margrét.

Hún prjónar peysurnar úr einbandi sem hún segir hafa orðið undir í prjónaheiminum.

„Það er skemmtilegt að prjóna úr íslenska einbandinu og það er þjált að prjóna úr því þó það sé hart fyrir þvott. Upphaflega ætlaði ég einungis að nota einbandið en hef bætt við alpaca-ull og dönsku einbandi, sem er mýkra.“

Margrét Halldórsdóttir sálfræðingur er alltaf með eitthvað á prjónunum.
Hægt er að kaupa peysurnar Móbjörgu og Þjóðbjörgu tilbúnar í Rammagerðinni, prjónaðar hér á Íslandi, en einnig er hægt að kaupa uppskrift og band í sérstökum kassa sem Margét hefur útbúið. Í hverjum kassa er bréf til þess sem mun prjóna peysuna og lógó Móakots á hörbút.

„Fyrirmyndin að bréfinu er sendibréf sem amma mín skrifaði langömmu minni að Móakoti. Í því er sagan sögð. Ég er að vinna með aldamótin og vil að allt sé í þeim stíl. Ég er ekkert að poppa Þetta of mikið upp,“ segir Margrét sposk.

Nánar má forvitnast um Móakot á  facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.