Skoðun

Kryddað samtal um Hörpu

Ástríður Magnúsdóttir skrifar
Svar við innsendu bréfi Örnólfs Hall sem birtist í Fréttablaðinu 15. janúar 2014 „Málheft“ málþing í og um tónlistarhúsið Hörpu“.

Í dag, fimmtudag, verður málþingið Skóflustunga haldið í Hörpu kl. 15-17 í Norðurljósum. Ákveðið var að fara nýjar leiðir í fyrirkomulagi málþingsins en uppstillingin verður eins og sjónvarpsþáttur í beinni, eins konar „Kryddsíld“ sem verður stjórnað af þáttarstjórnanda, sem spyr spurninganna og áhorfendur fylgjast með úr sal. Þetta er alþjóðlega þekkt og viðurkennt fyrirkomulag en telst heldur til nýbreytni hér á landi.

Þar verður rætt um Hörpu út frá arkitektúrnum, nýtingu hússins, hvernig hún er að reynast okkur, hvaða áhrif hún hefur á borgarumhverfið og mannlífið í Reykjavík. Dagskráin hefst með stuttum innleggjum frummælenda og í kjölfarið verður efnt til hringborðsumræðna undir stjórn Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa og fyrrverandi útvarpsmanns.

Umræðan verður ekki bara út frá arkitektúrnum heldur líka notandanum og hinum almenna borgara, svo hún ætti að höfða til breiðs hóps. Gott fólk, fulltrúar ólíkra sjónarmiða, tekur þátt í umræðunum svo óhætt er að búast við gagnrýninni, lifandi og skemmtilegri umræðu. Það er alls ekki meiningin að þetta verði einhver hyllingarsamkoma og þeir sem taka þátt hafa ólíkar skoðanir.

Þarna mætir fulltrúi hönnuða hússins, Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu Arkitektum, Hilmar Þór Björnsson, arkitekt Á stofunni og bloggari, með bloggið Arkitektúr, skipulag og staðarprýði, eina lifandi umræðuvettvang um arkitektúr og skipulag á Íslandi, Ólöf Örvarsdóttir, arkitekt og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fulltrúi eins helsta notanda hússins, Eyjólfur Pálsson húsgagnahönnuður, eigandi Epal, fulltrúi þjónustuaðila og Egill Helgason, sinfóníuunnandi, nágranni Hörpu, menningarrýnir, þáttastjórnandi og bloggari, fulltrúi hins gagnrýna borgara og almenna notanda Hörpu.

Reykvíkingar, Sinfóníuunnendur, arkitektar, embættismenn, popptónlistarmenn, Eurovison-aðdáendur, skipulagsfræðingar, hönnuðir og nágrannar Hörpu eru hvattir til að mæta og hlusta á áhugverða, lifandi og gagnrýna umræðu um Hörpu kl. 15-17 í Norðurljósum í dag. Boðið verður til móttöku eftir málþingið við afmælissýningu Mies van der Rohe-verðlaunanna, en þetta er síðasti dagurinn sem hún er uppi í húsinu. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Viðburðurinn er haldinn og skipulagður í samstarfi Hönnunarmiðstöðvar, Arkitektafélags Íslands og Hörpu.




Skoðun

Sjá meira


×