Innlent

Yfirmaður Interpol: Netglæpir ein stærsta áskorunin

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Yfirmaður alþjóðalögreglunnar Interpol segir að Íslandi hafi tekist að halda glæpatíðni mjög lágri þrátt fyrir mikinn fjölda skotvopna en rúmlega sextíu þúsund skráð skotvopn eru hér á landi. Hann segir að ein stærsta áskorun Interpol um þessar mundir séu netglæpir.

Ronald K. Noble hefur verið framkvæmdastjóri Interpol frá aldamótum en hann er bandarískur lögfræðingur og í leyfi sem prófessor við lagadeild NYU í New York.

Noble einsetti sér að heimsækja öll 190 aðildarríki Interpol þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra Interpol um aldamótin síðustu. Hann lætur senn af störfum og Ísland var síðasta á listanum en hann fundaði Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í morgun. 

30,3 byssur á hverja 100 íbúa

Eitt af því sem barst í tal á blaðamannafundinum í morgun var skotvopnaeign en Ísland er í 15. sæti í yfir fjölda skotvopna á hverja 100 íbúa. Það eru rúmlega sextíu þúsund skráð skotvopn í umferð hér á landi en á bak við þau rúmlega 30 þúsund virk vopnaleyfi. Það þýðir því í raun að á bak við mörg byssuleyfi eru tvær eða fleiri byssur.

„Ísland er mjög gott dæmi um land þar sem íbúarnir eru afar löghlýðnir og menntunarstig íbúanna er hátt. Ísland er land þar sem fólk vill stunda hvers kyns veiðar og vill eiga rétt á að hafa veiðivopn undir höndum. Glæpatíðni þar sem byssur koma við sögu er mjög lág. Mín skoðun er að Ísland sé fyrirmyndarland til sönnunar þess að íbúarnir geti haft vopn undir höndum án þess að það komi niður á örygginu,“ segir Noble.

Ísland hefur nokkuð stranga löggjöf varðandi skráningu vopna. Þá eru þeir sem eiga mikinn fjölda skotvopna reglulega heimsóttir af lögreglu til að kanna hvort ekki sé allt með felldu varðandi umgengni við byssurnar.

Netglæpir eitt stærsta vandamálið

Eitt af stærstu verkefnum sem Noble hefur fengist við hjá Interpol eru netglæpir og hvernig eigi að bregðast við þeim. „Sá vandi sem er mest aðkallandi á heimsvísu tengist hvers kyns netglæpum og birtist í því að skipulagðir glæpahópar geta unnið mjög hratt. Engar lagalegar hindranir standa í vegi þess að þeir fari með rafrænum hætti frá landi til lands og þeir geta gert ríkjum og íbúum þeirra skráveifu fjárhagslega. Þeir taka peningana og það verður afar erfitt að endurheimta þá,“ segir Noble. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×