Skoðun

Eru ábyrgðarskilmálar í bílasamningum Lýsingar ólögmætir?

Eftir bankahrun hefur í auknum mæli reynt á gildi sjálfskuldarábyrgða einstaklinga. Skemmst er frá því að segja að komið hefur í ljós að við tiltekin skilyrði hafa sjálfskuldarábyrgðir verið felldar úr gildi sem ólögmætar. Í flestum tilvikum hefur ógilding ábyrgðanna grundvallast á samkomulagi um notkun ábyrgða sem var fyrst undirritað árið 1998 og endurnýjað árið 2001. Með samkomulaginu voru settar ákveðnar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum sem hlutaðeigandi lánveitendur skuldbundu sig til að fylgja þegar ábyrgðarmenn voru fengnir að borði. Ein af þessum reglum er skyldan til að greiðslumeta lántaka og kynna ábyrgðarmanninum það greiðslumat áður en hann undirgengst ábyrgðina. Þá er undantekning á þessari reglu, en í þeim tilvikum þar sem gengist hefur verið í ábyrgð fyrir 1.000.000 kr., eða lægri fjárhæð, og ábyrgðarmaður hefur óskað „sérstaklega“ eftir því með skriflegum hætti að greiðslumat verði ekki framkvæmt er lánveitanda óskylt að meta greiðslugetu lántaka. Lýsing hefur verið aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða frá 1998 og eiga meginreglur samkomulagsins því við um lánveitingar og lánaskjöl Lýsingar. Í bílasamningum Lýsingar, sem telja nokkur þúsund, er hluti af stöðluðum skilmálum samningsins að ábyrgð takmarkist við 1.000.000 kr. og að ábyrgðarmaður óski ekki eftir greiðslumati. Með þessari framsetningu telur Lýsing sig komast hjá því að greiðslumeta lántaka. Þeir samningar sem undirritaður hefur skoðað gera hins vegar ekki ráð fyrir að ábyrgðarmaður óski „sérstaklega“ að greiðslumat skuli ekki framkvæmt. Með lögum nr. 14/1995 var innleidd tilskipun Evrópuráðsins um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Í frumvarpi laganna má finna umfjöllun um sérstakt samþykki: „Ekki telst hafa verið samið sérstaklega um samningsskilmála ef hann hefur verið saminn fyrir fram og neytandi því ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á efni skilmálans“. Ágalli Út frá þessu er það mat höfundar að ábyrgðarskilmálar í bílasamningum Lýsingar stangist að þessu leyti á við samkomulagið um notkun ábyrgða. Lýsing hefur út frá samkomulaginu verið bundin af því að semja um hverju sinni hvort greiðslumat yrði framkvæmt, eða í það minnsta fá sérstaka staðfestingu um ósk ábyrgðarmanns að greiðslumat verði ekki framkvæmt. Þessi ágalli getur leitt til þess að ábyrgð verði vikið til hliðar en dómstólar þurfa að byggja slíkar ákvarðanir á heildarmati hverju sinni. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu myndi það hafa víðtæka þýðingu fyrir fjölmennan hóp ábyrgðarmanna á bílasamningum Lýsingar, sem skipta þúsundum. Eftir bestu vitund höfundar hefur ekki reynt á þessa málsástæðu fyrir dómi en höfundur hefur þó rekið mál gegn Lýsingu fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki þar sem þessar málsástæður voru tíundaðar en ekki reyndi á þær þar sem Lýsing tók ákvörðun um að fella umrædda ábyrgð niður áður en málið fékk efnislega meðferð hjá nefndinni.



Skoðun

Sjá meira


×